Nú mætast stálin stinn vestanhafs í Bandaríkjunum þegar Barry háskólinn og Florida Tech eigast við í riðlakeppni Sunshine State Conference í 2. deild háskólaboltans. Þar hittast fyrir þeir Elvar Már Friðriksson (Barry) og Valur Orri Valsson (Florida Tech).

Nokkuð er á milli liðanna í Sunshine state riðlinum því Barry trónir á toppnum og hefur unnið alla sex leiki sína til þessa í riðlinum en Florida Tech er í næstneðsta sæti með einn sigur og fimm tapleiki.

Elvar Már er næststigahæsti leikmaður riðilsins með 22,2 stig að meðaltali í leik og hefur skorað 20 stig eða meira sjö leiki í röð en Sam Daniel liðsfélagi Vals Orra hjá Florida Tech leiðir listann með 27,7 stig að meðaltali í leik.

Félagarnir Elvar og Valur láta vel að sér kveða þegar kemur að því að mata liðsfélaga sína en Valur Orri er næstefstur á lista yfir flestar stoðsendingar að meðaltali í leik með 7,5 en skammt á hæla hans kemur Elvar Már með 7,1 stoðsendingu að meðaltali í leik.

Viðureign Barry og Florida Tech hefst kl. 21 að íslenskum tíma í kvöld.

Mynd/ vf.is – Elvar og Valur hafa marga hildina háð og mætast nú í Bandaríkjunum. Hafi okkur tekist að særa blygðunarkennd lesenda með endurbirtingu á gamalli mynd Víkurfrétta þá biðjumst við velvirðingar… en samt ekki.