Magnaður spennuslagur fór fram í Ljónagryfjunn í kvöld þegar ÍR jók forystu sína um fjögur stig á toppi Domino´s-deildar karla með 87-90 útisigri á Njarðvík. Um hnífjafnan leik frá upphafi til enda var að ræða þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í blálokin. Gríðarlega sterkt tvö útivallarstig hjá ÍR sem eru nú með 24 stig á toppi deildarinnar en Njarðvík um sinn í 5. sæti með 16 stig.

 

Það gekk á ýmsu í Ljónagryfjunni í kvöld, einum liðsmanni Ghetto-Hooligans hitnaði heldur í hamsi og fékk reisupassann frá dómurum leiksins. Reynsluboltinn Logi Gunnarsson missti dýrt sniðskot á örlagastundu og þá fékk hann loka þriggjastiga skot leiksins til að koma leiknum í framlengingu en það vildi ekki niður. Alls tólf sinnum skiptust liðin á forystu og ellefu sinnum var jafnt í leiknum en ÍR stóð af sér storminn og náði í tvö stór stig.

 

Framlagið hjá ÍR kom úr mörgum áttum í kvöld, Matthías Orri var beittur og sér í lagi þegar leikurinn var í járnum. Á þeim tíma tók Ryan Taylor einnig við sér en hann hafði hægt um sig framan af leik. Terrell Vinson var ÍR erfiður á köflum í kvöld með 24 stig og 8 fráköst og Logi Gunnarsson bætti við 17 stigum.

 

Foringinn

 

Það dylst engum að það er Mattías Orri Sigurðarson sem stýrir þessu toppliði ÍR en hann hélt vel á spilunum í kvöld og stýrði ÍR til sigurs með 22 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar.

 

Breiðu bökin

 

Í stöðunni 85-85 brenndi Logi Gunnarsson af sniðskoti og þá voru um 30 sekúndur til leiksloka. ÍR náði frákastinu og Njarðvíkingar brutu á þeim þar sem Matthías Orri fór á vítalínuna og kom ÍR í 85-87. Þarna komst ÍR við stýrið og lét ekki af haldi sínu. Logi átti kost á því að jafna leikinn fyrir Njarðvíkinga í tvígang á lokasekúndum leiksins, fyrst þegar brotið var á honum í þrist og hann fékk þrjú víti en tvö skiluðu sér niður og staðan 87-88. Síðasta skot leiksins var svo líka í höndum Loga í stöðunni 87-90 en sá þristur vildi ekki niður og ÍR fagnaði sigri.

 

Næsti leikur ÍR er þann 1. febrúar næstkomandi gegn Stjörnunni í Hertz Hellinum en Njarðvíkingar mæta Val að Hlíðarenda þann 31. janúar.

 

Tölfræði leiksins