Matthías Orri var tveimur fráköstum frá þrennunni góðu og stýrði liði sínu frábærlega til sigurs enn og aftur í kvöld?

 

Þið hafið væntanlega rætt það fyrir þennan leik og búist við því að KR-ingar myndu mæta svolítið særðir en ákafir inn í þennan leik?

Jújú, við bjuggumst við þeim þannig. Þeir komu alveg af hörku inn í leikinn, þeir voru ákafir og voru að taka mikið af sóknarfráköstum og voru grimmir varnarlega. Þeir voru svolítið að tvöfalda á mig og Ryan og láta reyna á hina sóknarlega. Það gekk framan af og við vorum að ströggla sóknarlega. En að sama skapi þá fannst mér við taka þeirra áhlaupi af ró, við vissum að þeir myndu koma sterkir. En svo hægt og rólega þá fórum við framúr þeim í seinni hálfleik og mér fannst þetta vera okkar megin meira og minna allan seinni hálfleikinn.

 

Þið eruð samt sem áður væntanlega frekar ósáttir með fyrri hálfleikinn hjá ykkur, margir tapaðir, 13 eða svo. En það sýnir kannski bara styrk að ná að laga það algerlega og ná kannski að stilla hausinn svolítið?

Já, þetta er bara breyting frá því á síðasta tímabili. Við erum mun sterkari andlega og það er komið bara ákveðið hugarástand hjá okkur þar sem okkur tekst oftast að vera bara frekar rólegir á hverju sem dynur, hvort við erum að komast yfir eða að lenda undir í leikjum. Við kannski byrjum aðeins að æsa okkur í fjórða leikhluta þegar við þurfum að klára leikina. En þetta er alveg rétt, þeir slógu okkur svolítið útaf laginu í byrjun, þeir tvöfölduðu á öll pick hjá mér og við erum ekki vanir að eiga við það og það tók okkur dálítinn tíma að klára þetta.

 

Í fyrri hálfleik fengu KR-ingar slatta af opnum þristum t.a.m. og þið kannski svolítið heppnir að þeir hittu ekkert sérstaklega vel.

Það er rétt, þeir hittu ekkert rosalega vel þó þeir hafi verið grimmir. Þeir hefðu vissulega geta hitt mun betur, einkum í fyrri hálfleiik. Þeir tóku líka slatta af sóknarfráköstum og fengu annað skot.

 

Vörnin varð áberandi betri hjá ykkur í seinni hálfleik.

Já við vorum hrikalega sterkir varnarlega í seinni hálfleik, læstum alveg okkar varnarhelmingi og það skóp sigurinn. Við fengum mikið af léttum körfum og þetta fór að rúlla eins og snjóbolti. Um leið og við jöfnuðum leikinn fyrir hálfleik fann ég það bara að við værum að fara að taka þetta. Við vorum alveg rólegur í hálfleiknum og við vissum alveg að við vorum að spila hrikalega illa í fyrri hálfleik, höfum ekki spilað svona illa á tímabilinu nema kannski á móti Haukum úti og Val kannski. Við vitum alveg að slæmir kaflar koma og við þurfum bara að taka því með ró, tölum saman og finnum út úr því hvað við getum gert betur, framkvæmum það svo og það hefur virkað.

 

Nú eruð þið bara einir á toppnum! En það er kalt þar…

Jújú það er ískalt á toppnum! Það er nú búið að vera kalt í allan vetur! En við ætlum að halda okkur þarna uppi í einu af fyrstu fjórum sætunum…

 

…já, bara spurning um að klæða sig vel?

….já bara klæða sig vel, setja upp húfu og ekki fá kvef!