Helena Sverrisdóttir lék sinn fyrsta leik fyrir Good Angels Kosice eftir endurkomuna þangað. Good Angels mætti þá franska liðinu Basket Landes í fyrri leik 16 liða úrslita Euro Cup. 

 

Helena sem kom aftur til liðsins eftir nokkra ára fjarveru átti flotta endurkomu og var framlagshæst. Hún endaði með 9 stig og 5 fráköst í leiknum en Helena lék rúmar 20 mínútur í leiknum. 

 

Good Angles töpuðu leiknum 69-55 og þeirra bíður því erfitt verkefni í seinni leiknum sem fer fram næstkomandi miðvikudag á heimavelli Helenu og félaga. 

 

Vera Helenu hjá Good Angles er tímabundinn en planið er að hún verði komin aftur til liðs við Hauka í Dominos deildinni áður en félagaskiptaglugganum lokar í byrjun febrúar. Í frétt á heimasíðu félagsins kemur þó fram að félagið vonast til þess að halda henni eins lengi og hægt er. 

 

Good Angels leika einnig í sameiginlegri deild liða frá Austur Evrópu auk slóvakísku deildarinnar og því álagið hjá Helenu og góðu englunum talsvert á næstu dögum.