Haukar hirtu toppsætið af Valskonum eftir sigur á liðinu í Dominos deild kvenna í dag. Segja má að Haukar hafi unnið grunnvinnuna af sigrinum í fyrri hálfleik en Valsarar náðu ekki að komast aftur til baka eftir það. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins: 

 

Eftir að Valsarar höfðu komist í 5-2 í byrjun leiks mættu Haukar með 14-2 áhlaup. Þar með voru heimakonur komnar í bílstjórasætið strax í byrjun leiks. Liðð var að hitta frábærlega og koma sér í góð skot. 

 

Annar leikhluti var í eigu Hauka einnig. Liðið virtist geta sett körfu í hverri einustu sókn en varnarleikur Vals var langt frá því að vera sannfærandi. Nánast allir leikmenn Hauka voru komnar með stig strax í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 52-35 fyrir Haukum. 

 

Valskonur komu mun ákveðnari til leiks í seinni hálfleik. Liðið setti fyrstu sjö stig hálfleiksins og náði muninum strax niður í tíu stig. Því miður fyrir Val þá varði stemmningin og áhlaupið ekki lengi. Haukar slökuðu á og fóru að setja niður öll skotin sín þegar leið á þriðja leikhlutann. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 73-57 fyrir Haukum. 

 

Munurinn var einfaldlega of mikill á milli liðanna í fjórða leikhluta til að þetta yrði leikur aftur. Haukar hittu ævintýralega vel á köflum, en liðið lét boltann ganga vel og fundu opin skot. 

 

Lokastaðan var 91-80 fyrir Haukum sem eru nú með jafn mörg stig og Valur á toppi deildarinnar. 

 

Tölfræði leiksins:

 

Haukar hittu mjög vel í leiknum, enduðu með 55% skotnýtingu í heildina og þar af 44% þriggja stiga nýtingu. Þrátt fyrir sigurinn töpuðu Haukar 20 boltum í leiknum en náðu þó tvöfalt fleiri sóknarfráköstum en Valsarar. 

 

Hetjan:

 

Helena Sverrisdóttir er mætt! Hún endaði með magnaða þrefalda tvennu í leiknum, var með 12 stig, 13 fráköst og 17!! stoðsendingar. Hún stjórnaði liðinu vel, fann samherja vel í opnum skotum og reif liðið upp. Whitney Fraizer var stigahæst hjá Haukum með 19 stig. 

 

Hjá Val var Aalyah Whiteside stigahæst með 31 stig en hún lenti í vandræðum varnarlega í leiknum. Besti leikmaður Vals var Hallveig Jónsdóttir en hún var með 18 stig og 6 stoðsendingar. Reyndi að rífa liðið upp og var eina sem barðist almennilega í fyrri hálfleik.  

 

Kjarninn:

 

Haukar einfaldlega voru mun sterkara liðið í dag. Það spilaði frábæran sóknarleik þar sem boltaflæðið var frábært og sjáfstraustið skein í skotunum. Liðið er nú komið á topp deildarinnar og búið að endurheimta besta leikmann Dominos deildarinnar í Helenu Sverrisdóttur. Það hefur lítill stöðugleiki verið í frammistöðu Hauka en vonandi fyrir Hafnfirðinga er liðið að ná því með vorinu. Frammistaða dagsins gefur allavega fögur fyrirheit og liðið til alls líklegt ef það getur byggt ofan á þennan leik. 

 

Valsliðið lýkur nú janúarmánuði með 50% sigurhlutfall. Liðið tapaði leikjum gegn þeim liðum sem eru að berjast með þeim á toppnum, Keflavík og Haukum. Varnarleikur liðsins var þeirra Akilesarhæll í dag en liðið gat bara ekki stoppað sókn Vals. Sóknarlega er liðið að spila ljómandi vel og ekki miklar áhyggjur að hafa þar. Þær þurfa hinsvegar að finna sjálfstraustið og gleðina sem skein af liðinu fyrri part tímabilsins.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Ólafur Þór Jónsson)

 

Viðtöl eftir leik:

 

Umfjöllun, myndir og viðtöl: Ólafur Þór Jónsson