Keflavík lagði Snæfell í kvöld í seinni undanúrslitaleik Maltbikars kvenna. Fyrri leikur kvöldsins var spennuslagur en liðin í seinni leiknum gerðu gott betur og réðust úrslitin ekki fyrr en á síðustu sekúndum framlengingar.

 

Þáttaskil:

Leikurinn fór nokkuð brösulega af stað en strax á fyrstu mínútunum var Sara Diljá leikmaður Snæfells komin með 3 villur og Ingi Þór þjálfari liðsins fékk einnig aðvörun frá dómurum áður en fyrsti leikhlutinn var einu sinni hálfnaður. Það var þó skýrt að bæði lið voru mætt til að sýna það og sanna að sætið í úrslitunum ætti að vera þeirra eign. Embla Kristínardóttir var mætt aftur til leiks með uppeldisfélaginu en hún rifti samning sínum við Grindavík á dögunum. Endurkoman er góðs viti fyrir Keflavík sem hafa því miður misst lykilleikmenn úr spilandi hóp vegna meiðsla.

 

Leikurinn var hnífjafn í lokin en lokaskot Kirsten McCarthy fyrir sigri Snæfells geigaði eftir að hafa snert allan körfuhringinn. Keflavík átti að lokum aðeins meira eftir á bensíntanknum í framlengingunni en Brittanny Dinkins tryggði sigurinn á vítalínunni í lokin. Lokastaðan var 83-81 í frábærum leik. 

 

 

Hetjan: 

Eins og við var að búast mæddi mikið á Kristen McCarthy (40 stig) í liði Snæfells en hún var ásamt Berglindi Gunnarsdóttur allt í öllu í sóknarleik liðsins. Rebekka Rán gerði vel í því að koma upp með boltann gegn sterkri pressuvörn Keflavíkur og gerði vel í mörgum þáttum leiksins sem sjást ekki á tölfræðinni. Hjá Keflavík gat ábyrgðin dreifst betur á milli leikmanna en þær gátu spilað á fleiri mönnum og leyft sér að hvíla sína bestu leikmenn oftar. Brittanny Dinkins (35 stig) var líkt og McCarthy stórkostleg í kvöld og þær skiluðu báðar frábærum tölum.

 

 

Kjarninn: 

Keflavík er komið í úrslit bikarkeppninnar í 23 skiptið á síðustu 30 árum sem er algjörlega fáheyrður árangur. Liðið gerði vel að koma til baka en Snæfell var með góða stöðu þegar heldur lítið var eftir af leiknum. Liðið er auðvitað vel mannað og vörn liðsins algjörlega mögnuð. Keflavíkur er í góðu færi að sækja annan bikarmeistaratitilinn í röð en þetta unga lið hefur endurtekið náð frábærum árangri og skrifað sig í sögubækurnar. 

 

Snæfell getur gengið frá borði ansi beinar í baki. Liðið gaf nákvæmlega ekkert eftir og skildi allt eftir á gólfinu. Að lokum voru það bara stór skot og örlítil atriði sem skildu liðin að en Snæfell getur nýtt sér þessa frammistöðu til að koma sér í gang í Dominos deildinni.

 

Tölfræði leiksins.

 

Myndasafn #1

Myndasafn #2

 

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

Umfjöllun / Elín Lára Reynisdóttir

 

Viðtöl / Ólafur Þór Jónsson og Davíð Eldur

 

Myndir / Bára Dröfn og Þorsteinn Eyþórsson