Körfuknattleiksmaðurinn Halldór Garðar Hermannsson leikmaður Þór Þorlákshafnar var um síðastliðna helgi kjörinn Íþróttamaður Sveitafélagsins Ölfuss fyrir árið 2017. 

 

Halldór Garðar sem hefur stimplað sig inn sem lykilleikmaður í liðið Þórs Þ í Dominos deild karla er tvítugur leikstjórnandi sem var einnig í stóru hlutverki hjá Íslenska U20 landsliðinu á liðnu ári. Liðið lék í A-deild evrópukeppninnar gegn efnilegustu leikmönnum Evrópu.

 

Í umsögn Íþrótta- og æskulýðsnefndar sveitarfélagsins kemur eftirfarandi fram: 

 

 

Halldór er fæddur 1997 og hefur átt glæsilegt körfuboltaár. Hann hefur leikið með meistaraflokki frá unga aldri en Halldór hefur verið sterkur leikmaður í yngri flokkum Þórs og í unglingalandsliðum KKÍ. Hann er orðinn lykilleikmaður í meistaraflokki Þórs og hefur sett að meðaltali 13,4 stig, 6 fráköst, 5 stoðsendingar í Íslandsmótinu í vetur. Halldór er reynslumikill leikmaður þrátt fyrir ungan aldur en hann hefur verið í öllum yngri landsliðum KKÍ og leikið á Norðurlandamótum og Evrópumótum.

Halldór var lykilleikmaður með U20 ára landsliði Íslands sem tryggði sér sæti í 8 liða úrslitum á EM A-deild í sumar með mögnuðum sigri á sterku liði Svía. Ekkert landslið hefur náð eins góðum árangri á Evrópumóti.