Snæfell tapaði fyrir Keflavík í 15. umferð Dominos deildar kvenna í dag. Liðið er í sjöunda og næst síðasta sæti deildarinnar. Hólmarar hafa lent í nokkrum meiðslavandræðum á tímabilinu og ekki náð að stilla upp sínu öflugasta liði. 

 

Körfuboltakona ársins 2016 og fyrirliði Snæfells Gunnhildur Gunnarsdóttir sneri til baka á völlinn í dag en hún hefur ekki verið með liðinu frá því í úrslitaeinvíginu gegn Keflavík síðasta vor. Gunnhildur eignaðist barn í byrjun nóvember en er komin á völlinn aftur einungis tveimur mánuðum eftir barnsburð. 

 

Gunnhildur var með tvö stig, tvö fráköst og tvær stoðsendingar á rúmum ellefu mínútum í þessum leik gegn Keflavík. 

 

Helga Hjördís Björgvinsdóttir sem einnig var í barneignarleyfi sneri líka aftur í liðið rétt fyrir jól sem gæti reynst mikilvægt fyrir Hólmara. 

 

Snæfell mætir Keflavík aftur á miðvikudaginn í undanúrslitum Maltbikarsins. Þar getur liðið hefnt tapsins í dag og en ljóst er að innkoma Gunnhildar og Helgu mun gera mikið fyrir liðið.