NBA liðið Milwaukee Bucks ráku fyrr í dag þjálfara sinn Jason Kidd úr starfi eftir nærri fjögur ár í starfi sem aðalþjálfari liðsins. Ástæðan er samkvæmt forsvarsmönnum liðsins sú að liðið þurfti ferskt blóð eftir slappt gengi síðustu vikna. 

 

Bucks sem spila í Austur deild NBA deildarinnar hafa ekki náð sér á strik, eru með nærri 50% sigurhlutfall og sitja í áttunda sæti deildarinnar. Austur deildin er talin mun slakari deildin þetta árið og því klár vonbrigði að liðið sé ekki ofar í töflunni. 

 

Liðið er auðvitað með gríska undrið Giannis Antetokounmpo innan sinna raða sem hefur verið einn allra besti leikmaður NBA deildarinnar á þessu tímabili. Þá var hann valinn í byrjunarlið stjörnuleiksins þetta árið. 

 

Samkvæmt fregnum vestanhafs mun Giannis vera eyðilagður vegna brottvísunar Jason Kidd en þeir munu hafa verið mjög nánir. Kidd á mikinn þátt í því að sá gríski hefur náð að taka miklum framförum á síðustu árum og mun Giannis hafa borið mikið traust til leikstjórnandans fyrrverandi. 

 

Joe Prunty aðstoðarþjálfari Kidd hjá Bucks mun stjórna liðinu í næstu leikjum þangað til nýr þjálfari verður ráðinn. Mark Jackson, David Fizdale og Sam Cassell eru meðal nafna sem komið hafa upp sem mögulegur eftirmaður Jason Kidd hjá Milwaukee Bucks.