Eloy Doce Chambrelan sem þjálfaði FSu á síðasta tímabili er ansi gagnrýninn á leikmenn og stjórn Skallagríms á Twitter í dag. Það er vegna brottrekstrar Richi Gonzalez sem þjálfaði Skallagrím þangað til í janúar er hann var látinn fara.

 

Í tístinu birtir hann myndband úr leik Vals og Skallagríms í Dominos deild kvenna frá því fyrr í þessari viku. Þar er Carmen Tyson-Thomas lang síðust til baka í vörn eftir hraðaupphlaup. Hann segir þetta vera leikmanninn og hennar viðhorf sem gagnrýndi þjálfarann. Með Richi sem þjálfara hafi þetta ekki verið leyft. 

 

Þá segir hann félagið (Skallagrím) hafa tekið stöðu með Carmen og leikmönnum gegn Richi áður en hann var rekinn. Richi var rekinn eftir bikartapið í undanúrslitum Maltbikarsins gegn Njarðvík. 

 

Í viðtali við Mbl.is á þriðjudaginn sagði Jóhann Björk leikmaður liðsins að það hafi aðallega verið neikvæðni þjálfarans sem leikmenn voru ósáttir við og að hann hafi verið fljótur að koma sökinni á aðra. 

 

Ari Gunnarsson var ráðinn þjálfari Skallagríms fyrir rúmri viku síðan en Carmen sagði í viðtali við Karfan.is eftir leikinn gegn Snæfell í síðustu umferð að liðið væri á betri stað. 

 

Það er því ljóst að sitt sýnist hverjum og dramatíkin eltir lið Skallagríms. Liðið situr í sjötta sæti deildarinnar og mætir Breiðablik í næstu umferð.