Stjarnan tók í kvöld á móti Þór frá Þorlákshöfn í 15. umferð Domino’s deildar karla. Bæði lið eru í bullandi baráttu um sæti í úrslitakeppni en gestirnir voru fyrir leik í 9. sæti deildarinnar með 10 stig, á meðan heimamenn voru í því 7. með 14. Eftir frábæran fyrri hálfleik höfðu Þórsarar 13 stiga forystu í hálfleik, 50-37,  en heimamenn náðu þófljótlega að vinna þann mun upp í þriðja leikhluta, og munaði aðeins þremur stigum á liðunum fyrir lokafjórðunginn, 63-60. Þá hrukku Þórsarar aftur í gang og höfðu á tímabili 15 stiga forystu í lokafjórðungnum. Leiknum lauk loks með sjö stiga sigri gestanna úr Þorlákshöfn, 79-86.

 

Lykillinn

 

Þórsarar áttu þrjá frábæra leikhluta í kvöld, að undanskildum þeim þriðja þar sem liðið skoraði einungis 13 stig. Það gera 73 stig í hinum leikhlutunum þremur, eða tæp 25 stig í fjórðungi. Í þessum þremur leikhlutum virtist allt ganga upp hjá gestunum, boltinn gekk vel manna á milli, öll skot virtust ofan í og vörnin var fantasterk. Stjörnumenn áttu að sama skapi þrjá frekar dapra leikhluta og einn mjög góðan. Varnarleikur heimamanna hefur oft verið betri og leyfðu Garðbæingar gestunum heldur oft að skora úr sniðskotum eftir gegnumbrot, sérstaklega í fyrri hálfleik. 

 

Hetjan

 

Margir leikmenn Þórsara gera tilkall til þessa, en þeirra bestur var þó Halldór Garðar Hermannsson. Stjörnumenn áttu mjög erfitt með að verjast Halldóri í fyrri hálfleik, þar sem hann virtist geta komist að körfunni að vild. Halldór endaði með 19 stig og 6 fráköst. Hjá heimamönnum var Collin Pryor atkvæðamestur með 23 stig og 16 fráköst.

 

Framhaldið

 

Með sigrinum komu Þórsarar sér heldur betur í baráttuna um sæti í úrslitakeppninni, en þeir eru nú enn í 9. sæti, aðeins tveimur stigum á eftir liðunum í 7. og 8. sæti. Stjarnan er eitt þeirra liða, en Garðbæingar eru eftir leikinn með 14 stig í 7. sæti. Næst spila Garðbæingar 1. febrúar gegn ÍR í Hertz hellinum í Breiðholti en Þórsarar spila næst gegn Keflavík á heimavelli, 2. febrúar.

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Bára Dröfn)

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson