ÍR-ingar hafa ekki reynslu af toppbaráttu á undanförnum árum en leikurinn í kvöld gegn Stólunum verður að teljast sem slíkur. Matti og félagar hjá ÍR hafa sannfært ýmsa spekinga um að liðið geti haldið sér við topp deildarinnar. Til að halda þeirri línu þurfa heimamenn einfaldlega að vinna þennan leik – topplið tapa ekki mikilvægum leikjum á heimavelli. 

 

Spádómskúlan: Í kúlunni sést greinilega móta fyrir stóru X-i með Byko í breiddinni í bakgrunni. Þessi myndhverfing táknar gengi liðanna í leiknum. Því miður fyrir heimamenn er erfitt að sjá annað en að Stólarnir séu línan sem er byrjar niðri og endar uppi. Samkvæmt þessu verður jafnt í hálfleik. Gestirnir taka BYKO á þetta og síga fram úr eftir því sem á líður og sigra 90-76.

 

Þáttaskil

Heimamenn byrjuðu betur í leiknum og Ryan var illviðráðanlegur undir körfunni fyrir gestina. Varnarleikur ÍR-inga var að vanda góður en sóknarleikur gestanna gerði heimamönnum þetta auðvelt enda virtust þeir halda að um þriggja stiga skotkeppni væri að ræða en ekki toppleik í deildinni. Eftir þrist frá nýjasta uppáhaldi Breiðhyltinga, Sæsa, var staðan orðin 25-13 og gestirnir gripu til þess ráðs að taka leikhlé. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 27-19 og Ryan kominn með 14 stig.

 

    Annar leikhluti var minna fyrir augað en sá fyrsti. Bæði lið gerðu sig sek um agalausan sóknarleik. Gestirnir bættu vörnina, einkum gegn Ryan og náðu að þrengja mun betur að honum. Lítið var skorað í leikhlutanum en Stólarnir náðu að naga forskotið niður í 35-33 fyrir hálfleik. Sigurkarl Róbert var í raun púslið sem bætti upp myndina þegar Stólarnir náðu að loka betur á Ryan og átti sennilega sinn besta leik á ferlinum. Spádómskúlan var rífandi montinn með sig en átti eftir að verða fyrir miklum vonbrigðum líkt og annað liðið eftir leik.

 

    Danero kom heimamönnum í 38-33 snemma í þriðja leikhluta og undirritaður hafði þá tilfinningu að það að halda forskotinu væri ÍR-ingum dýrmætt. Að heimamenn myndu keyra yfir gestina í leikhlutanum var hins vegar frekar óvænt. Sóknarleikur Stólanna var sem fyrr agalega taktlaus og þegar þeir reyndu að troða boltanum niður á Hester, að líkindum samkvæmt skipun Israel Martin, misstu þeir einfaldlega boltann. Eftir þrist frá Hákoni og skrímslatroð frá Ryan var staðan 53-40 og langt liðið á leikhlutann. Gettóarnir drógu fram innisprengjur á þessum tímapunkti og rífandi hamingja í stúkunni! Fyrir lokaleikhlutann leiddu heimamenn 58-43 og holan fræga mjög óþægileg.

 

    Er þetta komið núna? var spurning fjórða leikhluta. Stólarnir reyndu, ekki vantaði upp á það. Þeir spiluðu vörn sem betra hefði verið að spila allan leikinn og uppskáru stolna bolta og auðveld varnarfráköst. Forskot ÍR-inga hékk í 6-10 stigum sem getur verið fljótt að fara en Skagfirðingar komu ekki nægilegum taugatitringi af stað í hjörtum heimamanna. Hákon Örn setti tvo frekar skrautlega þrista á flautunni í leikhlutanum og hélt sínum mönnum ofan á. Það hitnaði svolítið í S. Arnari og sóknarleikurinn var e.t.v. skömminni skárri en fyrr í leiknum hjá gestunum. Heimamönnum leið sennilega ekki vel fyrr en í blálokin þar sem gestirnir hótuðu ítrekað að hleypa alvöru spennu í leikinn. Allt kom fyrir ekki og ÍR-ingar fögnuðu eðlilega vel og innilega 83-75 frábærum sigri að lokum.

 

Tölfræðin lýgur ekki

 

Í tveggja stiga skotum var nýting Stólanna aðeins 31% á móti 56% hjá ÍR. Þar liggur munurinn á liðunum tölfræðilega. Það segir þá sögu að heimamenn unnu baráttuna undir körfunni sem átti stóran þátt í sigrinum.

 

Bestu leikmenn

 

Ryan og Matti voru atkvæðamestir ÍR-inga eins og oft áður. En það er Sigurkarl, Fissi Kalli, sem á fyrirsögnina. Drengurinn setti 19 stig og klikkaði ekki úr skoti í leiknum! Undirritaður leggur til að hann taki öll skot ÍR-inga í næsta leik. Ryan var með 21 stig og 13 fráköst og Matti með 22 stig, 7 stoðsendingar og 6 fráköst. Arnar var með 19 stig fyrir gestina en mætti alveg fá einhverja punkta frá Fissa Kalla eftir leik.

 

 

Kjarninn

 

Þessi sigur ÍR-inga er risastór. Þeir eru í bullandi toppbaráttu og þurfa að kaupa meira af sokkum ef þeir halda svona áfram. Deildin er jöfn og umtalsvert eftir af leikjum en hver er ekki spenntur að sjá hversu langt ÍR-liðið fer í vetur??

 

Það er eitthvað andlegt að hrjá Stólana. Þeir ætla að verða Íslandsmeistarar og þeir vita að þeir hafa frábært lið en það er ekki nóg að hafa hæfileika og markmið. Sennilega þarf að senda liðið til sálfræðings ekki seinna en núna. 

 

Athygliverðir punktar:

  • Gettóarnir voru rosalegir í kvöld. Æðisleg stemmning, innisprengjur, jólalög og gleði…það eru enn jól í Breiðholti.
  • 11 leikmenn Stólanna skoruðu í kvöld – það er sjaldgæf sjón í tapleik.
  • Spádómskúlan ofmetnaðist í hálfleik og beið afhroð í þeim seinni. Undirritaður laumaði henni í Tindastólskálfinn að leik loknum og vonandi fær hún að fljóta með í sálfræðitímann.

 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Ólafur Þór)

 

Viðtöl eftir leik: 

 

 

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson 

Myndir / Ólafur Þór Jónsson