Keflavík er Maltbikarmeistari 2018 eftir góðan sigur á nágrönnum sínum í Njarðvík í úrslitaleik dagsins. Keflavík var í bílstjórasætinu allan leikinn en Njarðvík gafst aldrei upp. Að lokum fór svo að Keflavík vann 74-63 sigur og lyfti bikarnum. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Fyrir leik: 

 

Njarðvík sem er án sigurs í Dominos deildinni er komið alla leið í úrslit Maltbikarsins eftir að hafa slegið út þrjú sterk lið. Núverandi bikarmeistarar Keflavíkur unnu Snæfell í undanúrslitum en nokkur meiðsli og veikindi hafa sett strik í reikninginn hjá liðinu. 

 

 

Gangur leiksins:

 

Keflavík náði forystunni strax með fyrstu körfunni og má segja að liðið hafi aldrei litið til baka eftir það. Munurinn varð þó ekki meiri en átta stig í fyrri hálfleik en Njarðvík var alltaf rétt á eftir Keflavík. Eftir flottan endi Njarðvíkur á fyrri hálfleik var staðan jöfn 35-35 í hálfleik. 

 

Keflavík gaf aftur tóninn strax í upphafi með því að ná fimm stiga forystu sem Njarðvík virtist ekki geta étið almennilega upp. Risakörfur frá Emblu Kristínardóttur og Brittanny Dinkins í fjórða leikhluta gerðu svo útaf við leikinn. Lokastaðan 74-63 í þessum stórfína leik og Keflavík lyfti bikarnum annað árið í röð. 

 

Hetjan:

 

Embla Kristínardóttir var gríðarlega mikilvæg fyrir Keflavík í leiknum. Hún stjórnaði liðinu vel og var oft upphafið af boltaflæði liðsins. Auk þess setti hún risaskot og reyndist framlag hennar stórt á lokamínútunum. Emba endaði með 20 stig, 6 fráköst og 2 stoðsendingar auk þess að hitta mjög vel. Dinkins átti einnig fínan dag en hún var lengi í gang og var bara með fimm stig í hálfleik. Hún steig upp í fjórða leikhluta þegar liðið sleit sig frá Njarðvík. Dinkins endaði með 16 stig, 11, fráköst, 8 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Brittanny var valin besti leikmaður leiksins við verðlaunaafhendingu eftir leik. 

 

Hjá Njarðvík átti Shalonda Winton algjörlega magnaðan leik. Hún endaði með tröllatvennu 37 stig og 23 fráköst. Björk Gunnarsdóttir var einnig drjúg, öryggi hennar á boltanum gegn sterkri vörn Keflavíkur var aðdáunarverð auk þess sem hún stjórnaði liðinu vel. Einnig er vert að nefna Ernu Freydísi Traustadóttir sem barðist gríðarlega í leiknum og var óhrædd þrátt fyrir að skotin hennar væru ekki að detta. 

 

Kjarninn

 

Njarðvík getur verið stolt af frammistöðu sinni í þessari keppni og í þessum leik. Segja má að þær hafi hreinlega mætt ofjörlum sínum í leiknum en Njarðvík elti allan leikinn. Liðið barðist hetjulega og var greinilega að það ætlaði að skilja allt eftir á parketinu. Silfurverðlaun verða að teljast flottur árangur sérstaklega ef horft er til úrslitanna í deildinni. 

 

Keflavík vann bikarmeistaratitilinn annað árið í röð en í þetta skipti vantaði tvo sterka leikmenn vegna meiðsla og veikindi hafa hrjáð liðið í undirbúningnum. Auk þess er þetta fimmti bikarmeistaratitill Keflavíkur í meistaraflokki kvenna og er liðið það lang sigursælasta í þessari keppni. Liðið sýndi þolinmæði og yfirvegun í þessum leik. Það hefði verið nokkuð auðvelt að brotna undan áhlaupi Njarðvíkur, en liðið hélt ró og gerði nægilega mikið til að vinna bikarinn. 

 

Til hamingju Keflavík

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn 

 

Viðtöl:

 

 

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Bára Dröfn

Viðtöl / Davíð Eldur og Ólafur Þór