Haukar sigruðu Keflavík með 73 stigum gegn 70 í lokaleik 16. umferðar Dominos deildar karla. Eftir leikinn eru Haukar í 2.-4. sæti deildarinnar ásamt KR og Tindastól á meðan að Keflavík er í 7.-8. ásamt Stjörnunni.

 

 

Fyrir leik

Eitthvað hafði verið um meiðsli í herbúðum liðanna. Reggie Dupree sem áður enn frá hjá Keflvík og þá var Magnús Már Traustason einnig meiddur. Hjá Haukum var Kári Jónsson ennþá að jafna sig af meiðslum, en eftir að haf byrjað á bekknum kom hann þó inná.

 

Gangur leiks

Leikur kvöldsins fór hressilega af stað. Liðin skiptust á að skora hvort á annað og eftir fyrsta leikhlut var allt í járnum, 19-19. Undir lok fyrri hálfleiksins síga Haukar þó eilítið frammúr heimamönnum, eru með 5 stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 32-37.

 

Í upphafi seinni hálfleiksins halda Haukar svo áfram að vera skrefinu á undan. Leiða með 7 stigum fyrir lokaleikhlutann, 51-58. Í honum hóta þeir svo oft að fara almennilega fram úr, en allt kemur fyrir ekki. Með tveimur þristum frá Ragnari Bragasyni þegar um 3 mínútur voru til leiksloka minnka Keflvíkingar muninn niður í 2 stig, 66-68. Nær komust þeir þó ekki. Undir lok leiksins fengu þeir tvö góð tækifæri, fyrst til þess að komast yfir með skoti Harðar Axels, síðan aftur Ágúst til að jafna þegar að klukkan rann út. Bæði skotin voru þó af og fór svo að lokum að Haukar sigruðu með 3 stigum, 70-73.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Haukar skutu boltanum mun betur en heimamenn í leik kvöldsins. Fyrir utan þriggja stiga línuna settu Keflvíkingar aðeins 7 skot niður af 33 tilraunum (21%) Haukar gerðu betur, settu 10 skot niður af 29 tilraunum sínum (34%)

 

 

Kjarninn

Bæði lið höfðu verið í lægð fyrir leik kvöldsins. Haukar  gerðu vel með að koma sér aftur á sigurbrautina og halda þá í við KR og Tindastól við topp deildarinnar. Þó Keflavík hafi tapað leiknum, þá var þó heilmargt jákvætt (miðað við síðustu leiki) sem þeir taka úr leiknum.

 

Hetjan

Hjálmar Stefánsson var atkvæðamestur í liði Hauka í dag. Af bekknum spilaði hann 24 mínútur, skilaði á þeim 12 stigum (100% skotnýting) 7 fráköstum, 2 stolnum boltum, 2 vörðum skotum og stoðsendingu.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur

Myndir / Bára Dröfn

 

Viðtöl: