Keppni í Domino´s-deild karla hefst á nýjan leik í kvöld eftir jólafrí en alls fjórir leikir eru á boðstólunum þetta kvöldið og strax í kvöld mun toppliðum deildarinnar fækka!

Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15 og verður viðureign ÍR og Tindastóls í Hertz-Hellinum í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport.

Leikir kvöldsins í Domino´s-deild karla, 19:15:

ÍR – Tindastóll (Stöð 2 Sport)
Njarðvík – KR
Valur – Keflavík
Stjarnan – Höttur

ÍR-Tindastóll
Liðin eru á toppnum með 16 stig eins og KR og Haukar en ÍR-ingar opnuðu vertíðina með látum þegar þeir tóku öflugan 71-74 útisigur gegn Tindastól í Síkinu í fyrstu umferð deildarinnar.

Njarðvík-KR
Íslands- og bikarmeistarar KR eru eitt af fjórum toppliðum deildarinnar með 16 stig en skammt á hæla toppliðanna eru Njarðvíkingar með 14 stig. Það verða eflaust einhver lætin í Ljónagryfjunni enda KR með sigur í fyrri deildarleiknum og hentu Njarðvíkingum út í bikarnum.

Valur-Keflavík
Nýliðar Vals fengu 117-86 skell gegn Keflavík í fyrstu umferð deildarinnar en hafa síðan þá lagt m.a. Stjörnuna, ÍR og Þór Akureyri og sýnt ansi athyglisverða tilburði. Á sama tíma mæta Keflvíkingar með Hörð Axel Vilhjálmsson að Hlíðarenda og nýjan Bandaríkjamann í farteskinu að nafni Dominique Elliott.

Stjarnan-Höttur
Stjarnan vann öruggan 66-92 útisigur gegn Hetti í fyrstu umferð og síðan þá hafa nýliðar Hattar ekki unnið leik í deildinni. Garðbæingar eru að sama skapi í 8. sæti deildarinnar með 10 stig og munu sækja stigin stíft í kvöld til að freista þess að halda Valsmönnum og Þór Þorlákshöfn í skefjum.

Þá er einn leikur í 1. deild karla í kvöld þegar Skallagrímur tekur á móti stemmningsliði Gnúpverja kl. 19:15 í Fjósinu í Borgarnesi. Borgnesingar 10-2 á toppi deildarinnar en Gnúpverjar 4-8 í 7. sæti deildarinnar.