Breiðablik lyft bikarmeistaratitlinum í unglingaflokki drengja eftir góðan sigur á ÍR í úrslitaleiknum. Leikurinn var í beinni útsendingu á RÚV og var enginn svikinn um góðan körfuboltaleik. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Fyrir leik

 

Nú í dag mættust lið ÍR og Breiðabliks í spennuþrungnum bikarúrslitaleik í unglingaflokki drengja. Allir úr byrjunarliði Blika í þessum leik mættu KR-ingum í undanúrslitum í bikarkeppninni í meistaraflokki karla og þurftu að lúta lægra haldi þar, þeir eru Ragnar Jósef, Sveinbjörn, Árni Elmar, Brynjar Karl og Snorri. Í liði ÍR-inga voru þó nokkrir leikmenn sem hafa spilað nokkuð stór hlutverk í liði ÍR í Dominos-deildinni en þar má helst nefna þá Sigurkarl Róbert, Hákon Örn og Sæþór Elmar. 

 

Gangur leiks

 

Leikurinn fór fremur rólega af stað en liðin voru bæði að tapa boltanum mikið sem og að klikka á þægilegum skotum en liðin duttu þó bæði fljótlega í takt. Blikarnir leiddu mest allan fyrsta leikhlutan og voru komnir með 7 stiga forystu en þá datt Sigurkarl í gang og tók nokkrar sterkar körfur í röð og kom ÍR-ingum yfir. Staðan í lok fyrsta leikhluta 16-13 Breiðhiltingum í vil. 

 

Annar leikhluti fór aðeins betur af stað fyrir ÍR-inga en þeir voru komnir í villuvandræði strax eftir 3 mínútur í öðrum leikhluta en Ingvar Hrafn var kominn með 3 villur og Ísak Máni kominn með 4 og undir lok leikhlutans var Sæþór Elmar kominn með 3 villur einnig.  Liðin skiptust á að skora körfur í leikhlutanum og var hann mjög jafn, ÍR komu aðeins sterkari inn í leikhlutann og náðu mest að búa sér til 8 stiga forystu en Blikar gáfu ekkert eftir og jöfnuðu leikinn þegar það voru 2 mínútur eftir af leikhlutanum.  ÍR leiddu í hálfleik með einu stigi 39-38 í hörkuleik. 

 

 

Blikar komu vel gíraðir inn í 3.leihkluta og tóku frábært áhlaup sem varð til þess að ÍR-ingar urðu að taka leikhlé um miðjan leikhlutan en ÍR-ingar voru að tapa boltanum að óþörfu og gengu Blikarnir á lagið. ÍR-ingar áttu erfitt með að komast að körfunni og spiluðu Blikarnir frábæran varnarleik. Leikhléið hjá ÍR skilaði sér alveg greinilega en þeir gengu á lagið og settu hvert stóra skotið á fætur öðru og jöfnuðu leikinn en Snorri Vignisson setti niður flautuþrist sem varð til þess að Blikar gengu inn í 4.leikhlutann með 2 stiga forystu 59-61. 

 

Sama var upp á teningnum í 4.leikhluta en bæði lið skiptust á að skora og varð aldrei mikill munur á milli þessara liða. ÍR-ingar komu með flott áhlaup en þá svöruðu Blikar því bara með sterku áhlaupi til baka. Liðin voru hníjöfn og þegar 12 sekúndur voru eftir leiddu Blikar með 2 stigum 80-82 og áttu 2 víti, Árni Elmar setti niður bæði vítin sín og tryggði Blikum 80-84 sigur. 

 

Lykillinn

 

Snorri Vignisson. Frábær leikur hjá frábærum leikmanni. Snorri leiddi sitt lið með 23 stig í leiknum og tók einnig 12 fráköst og var með 4 stolna bolta. Algjör leiðtogi í sínu liði sem var vel að því kominn að vera valinn maður leiksins í dag. 

 

Kjarninn

 

Blikarnir lögðu sig alla fram og börðust til síðustu sekúndu í leiknum. Liðið spilaði góðan körfubolta og fengu þeir framlag frá mörgum leikmönnum en 4 leikmenn fara yfir 10 stig í leiknum það voru þeir: Ragnar Jósef 25, Snorri 23, Árni Elmar 17, Sveinbjörn 13. 

 

Vesenið

 

Villuvandræði ÍR-inga settu klárlega strik í reikninginn en Ingvar Hrafn var fljótt kominn með 3 villur og Ísak Máni 4. Annað sem hjálpar Breiðhiltingum ekki í þessum leik er slök vítanýting en þeir setja niður 12/23 vítum sem eru einungins 52% en nýtingin verður að vera betri til þess að vinna svona jafnan leik. 

 

Samantektin

 

Frábærum körfuboltaleik lokið sem endaði með sigri Breiðabliks en þetta er fyrsti bikartitill Breiðabliks í öllum flokkum og mega þessir drengir vera stoltir af því afreki! ÍR-ingar spiluðu vel hér í dag og voru óheppnir að ganga ekki úr Laugardalshöllinni sem bikarmeistari en leikurinn hefði getað endað báðum megin.  

 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn 1 (Bára) 

Myndasafn 2 (Bjarni)

 

Viðtal eftir leik:

 

 

Umfjöllun / Axel Örn Sæmundsson