Í kvöld tók karlalið Breiðabliks á móti Snæfell í annarri viðureign liðanna af þremur í fyrstu deild karla. Breiðablik bættu við sig öðrum erlendum leikmanni skömmu fyrir leikinn, en þeir sömdu við Chris Woodsí vikunni. Snæfell hafði unnið fyrri leikinn í Stykkishólmi en lutu í lægra haldið að þessu sinni. Breiðablik fékk mikið framlag af bekknum sínum og vann að lokum með 33 stigum, 113-80. 
 

Leikurinn byrjaði jafnt, bæði lið voru dugleg að nýta færin sín og staðan eftir 5 mínútur var nokkuð jöfn. Eftir það fóru Blikar hins vegar að hitta betur og voru duglegir að refsa lélegum skotum og töpuðum boltum með hraðaupphlaupum. Úr stöðunni 16-15 skoruðu heimamenn 15 stig í viðbót í fyrsta leikhluta gegn einungis 7 stigum hjá gestunum. Staðan 31-22 fyrir Blikum.

Áfram héldu Blikarnir að rúlla í öðrum leikhlutanum og þeir skoruðu tvö stig fyrir hvert eitt hjá Snæfell. Á tæpum fimmtán mínútum höfðu Kópavogspiltarnir skorað 50 stig og þeir luku fyrri hálfleik með 68 stig gegn 41 hjá Hólmurunum.

Seinni hálfleikurinn var skárri hjá gestunum, en skaðinn var eiginlega skeður. Þrátt fyrir að Snæfellsmenn næðu að takmarka Blika í seinni hálfleik þá gátu þeir ekki skorað nóg til að það skipti einhverju máli. Leiknum lauk eins og áður sagði 113-80, Blikum í vil.
 

Þáttaskil

Þáttaskilin urðu eiginlega í seinni hluta fyrsta leikhlutans, en Blikar snögghitnuðu og Snæfell gat ekki haldið í við þá. Leikurinn réðst í raun þegar 27 stiga munur var á liðunum í hálfleik.
 

Hetjan

Erlendur Ágúst Stefánsson var maður leiksins að þessu sinni. Hann spilaði góða vörn, hljóp völlinn vel og átti mjög árangursríkan leik. Hann hitti úr sex af átta skotum í fyrri hálfleik, klikkaði ekki á tveggja stiga skoti í leiknum (5/5) og hitti sex þrista í ellefu tilraunum (6/11, 54.5% í 3ja). Hann lauk leik með 28 stig, 3 fráköstum og 4 stoðsendingum.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Blikarnir unnu þetta á sóknarfráköstum og því að þeir fengu fleiri sóknartækifæri, en þeir hrepptu 21 sóknarfráköst gegn 4 hjá Snæfell. Það skilaði sér í 26 fleiri skotum utan af velli og skilaði að lokum sigri. Blikar voru líka duglegir að hlaupa í leiknum (23 stig úr töpuðum boltum) og þreytumst ekki, enda spilaði engin leikmaður meira en 24 mínútur.
 

Kjarninn

Blikar sýndu dýptina í þessum leik, enda virðast þeir eftir áramót hafa gert þær breytingar sem þarf til að liðið fari beint upp eða eigi góðan séns í úrslitakeppninni. Tveggja Kana kerfið virðist hafa gengið vel í þessum leik, enda eru Jeremy Smith og Chris Woods mjög góðir leikmenn og gætu í sameiningu hjálpað Breiðablik að tryggja sér sæti í Domino’s deild karla á næsta tímabili.
 

Tölfræði leiksins
Myndasafn: Bjarni Antonsson
Viðtöl eftir leikinn:

 
Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson