Njarðvík tekur í kvöld á móti Snæfell í Dominos deild kvenna. Mikið hefur verið um að vera hjá Njarðvíkurliðinu síðustu vikur, sem bæði fór alla leið í úrslit Maltbikarkeppninnar, sem og skipti um þjálfara litlu eftir keppnina.

 

Karfan spjallaði við leikmann þeirra, Björk Gunnarsdóttur, fyrr í dag og spurði hana út hvernig stemmingin væri herbúðum hennar stúlkna. Sagði hún andann í liðinu góðan og að þær ætluðu ekki að horfa til baka, frekar ætluðu þær að halda sínu striki og sýna hvað í þeim býr.

 

Varðandi bikarkeppnina sagði Björk gott gengi þar hafa gefið liðinu meira sjálfstraust og trú á þeirra verkefni. Þær viti hvað þær eru góðar og að í bikarkeppninni hafi þær loksins náð að sýna það.

 

Ekkert gengið það sem af er tímabili hjá Njarðvík í deildinni. Í einhver skipti verið nálagt því, en þó ekki náð að sigra leik í fyrstu 17 umferðunum. Nokkur bið því verið fyrir liðið og stuðningsmenn þess eftir fyrsta deildarsigrinum. Spurð út í það sagði Björk að fyrsti sigurinn kæmi gegn Snæfelli í kvöld. Liðið væri búið að undirbúa sig vel fyrir leikinn og að þær væru tilbúnar í hörku slag.

 

Njarðvík tekur á móti Snæfelli í 18. umferð Dominos deildar kvenna kl. 19:15 í Ljónagryfjunni.