Stjarnan tók í kvöld á móti Hetti í fyrsta leik nýs árs í Domino’s deild karla. Fyrir leikinn var Stjarnan í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni deildarinnar á meðan gestirnir sátu á botni deildarinnar án stiga. Leikur kvöldsins varð heldur aldrei spennandi, enda leiddu heimamenn hann frá upphafi til enda. Fór svo að lokum að Garðbæingar unnu 33 stiga sigur, 102-69.

 

Lykillinn

Eins og lokastaðan gefur til kynna var munurinn á liðunum mikill í kvöld. Gestirnir frá Fljótsdalshéraði lentu snemma í miklum villuvandræðum sem hjálpaði þeim sannarlega ekki gegn Stjörnumönnum sem höfðu talsverða yfirburði á öllum sviðum.

Hetjan

Ingimundur Orri Jóhannsson skoraði sín fyrstu stig í Domino’s deildinni í kvöld með góðri þriggja stiga körfu. Ingimundur var einn fjögurra leikmanna Stjörnunnar í kvöld sem fæddust árið 2001 og því ljóst að nóg er af efnilegum leikmönnum í Garðabæ.

Framhaldið

Stjörnumenn spila næst gegn KR í DHL-höllinni sunnudaginn 7. janúar, á meðan höttur tekur á móti ÍR á Egilsstöðum.

 

Myndasafn: Bára Dröfn

Tölfræði leiks