Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta hélt til Lúxemborgar í morgun á æfingamót, sem er í boði körfuknattleikssambandsins þar í landi, sem stendur yfir dagana 27.-29. desember. Á mótinu leika heimastúlkur frá Lúxemborg ásamt U20 ára liði Hollands. 
 
Liðið hélt út í morgun og mun vera við æfingar og leika æfingaleiki fram að heimför þann 30. des. Liðið æfir í kvöld og svo leikur liðið þrjá æfingaleiki næstu tvo daga.
 
Ívar Ásgrímsson þjálfari og aðstoðarþjálfarar hans, Bjarni Magnússon og Hildur Sigurðardóttir völdu 12 leikmenn til að taka þátt í mótinu fyrir skemmstu. 
 
Þau gerðu eina breytingu á vali sínu fyrir jól þegar ljóst var að Helena Sverrisdóttir væri á leið í atvinnumennsku í desember/janúar í Slóvakíu með sínu gamla liði Good Angels Kosice, og völdu þau Dýrfinnu Arnardóttur frá Haukum í hennar stað.
 
Þar með eru það þrír nýliðar sem leika með landsliðinu á æfingamótinu, en það eru þær Isabella Ósk Sigurðardóttir og Sóllilja Bjarnadóttir, báðar frá Breiðabliki og svo Dýrfinna Arnardóttir frá Haukum.
 
Landslið Íslands á æfingamótinu í Lúxemborg:
 
Berglind Gunnarsdóttir · Snæfell
Birna Valgerður Benónýsdóttir · Keflavík
Dýrfinna Arnardóttir · Haukar
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir · Valur
Guðbjörg Sverrisdóttir · Valur
Hildur Björg Kjartansdóttir · Spánn
Isabella Ósk Sigurðardóttir · Breiðablik
Ragna Margrét Brynjarsdóttir · Stjarnan
Sandra Lind Þrastardóttir · Danmörk
Sóllilja Bjarnadóttir · Breiðablik
Thelma Dís Ágústsdóttir · Keflavík
Þóra Kristín Jónsdóttir · Haukar
 
Aðrir leikmenn sem voru í valdar í æfingahópinn en eru ekki með:
Emelía Ósk Gunnarsdóttir · Meidd
Helena Sverrisdóttir · Leikur erlendis des.-jan. í Slóvakíu
Hallveig Jónsdóttir · Gaf ekki kost á sér að þessu sinni
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir · Meidd