Það ríkti nokkur eftirvænting þegar flautað var til leiks í kvöld í DHL-höllinni í toppslag KR og Grindavíkur í fyrstu deildinni í meistaraflokki kvenna í körfubolta. Fyrir leikinn höfðu bæði lið unnið fjóra sigra, en Grindavík leikið einum leik meira og var með eitt tap á bakinu. Spennan varði hins vegar ekki lengi.

 

KR-ingar tóku forustu í upphafi og létu hana aldrei af hendi. Eftir þrjár mínútur var staðan orðin 12:3 fyrir KR og jókst munurinn jafnt og þétt eftir það. Endaði leikurinn með 92:57 sigri KR, sem þar með er efst í deildinni. Liðsheildin skóp þennan sigur hjá KR á meðan Angela Rodrigez, sem einnig er þjálfari liðsins, reyndi að draga vagninn hjá Grindavík og skoraði rúmlega helming stiga liðsins, eða 31 stig. Saknaði Grindavík sárlega leikstjórnanda síns, Emblu Kristínardóttur, sem leikur nú með landsliðinu. Hafði leiknum reyndar verið frestað að ósk Grindvíkinga, en fyrr í vikunni fóru Suðurnesjamenn fram á að leikurinn færi fram í kvöld eftir allt saman.

 

Allt KR liðið barðist vel í leiknum, boltinn gekk oft hratt á milli leikmanna, sem gaf mörg opin færi. Þegar flautað var til leiksloka höfðu sex leikmenn KR skorað yfir 10 stig. Stigahæst var Perla Jóhannsdóttir með 17 stig og fimm stoðsendingar að auki. Desiree Ramos spilaði að venju af öryggi. Hún hafði sig hæga í stigaskoruninni framan af, en sótti í sig veðrið og endaði með 11 stig.

 

Eygló Kristín Óskarsdóttir skoraði 15 stig, sýndi öryggi í aðgerðum sínum undir körfunni og skoraði jafnframt úr öllum fimm vítaskotum sínum. Að auki tók hún sex fráköst. Ragnhildur Arna Kristinsdóttir skoraði 14 stig, Ástrós Lena Ægisdóttir 11, Unnur Tara Jónsdóttir 10 (og sex fráköst), Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir sjö stig, Kristbjörg Pálsdóttir fimm stig og Gunnhildur Bára Atladóttir tvö stig. Fyrrnefnd Angela Rodriquez var með 31 stig fyrir Grindavík og var lang stigahæst. Natalia Jenný Jónsdóttir og Ólöf Rún Óladóttir voru þá með 8 stig, næst stigahæstar Grindvíkinga. 

 

Næsti leikur KR er á föstudag gegn Þór á Akureyri en Grindavík fær Hamar í heimsókn næstkomandi sunnudag. 

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / KB