Í kvöld mættust Þór Þorlákshöfn og Valur í hálfgerðum fallbaráttuslag ef svo má kalla í Dominos deild karla. Fyrir leik voru Þórsarar í 11.sæti deildarinnar með 2 stig en Valsarar í því 9. með 6 stig. Leikurinn fór fjörlega af stað og skiptust liðin á körfum, Valsmenn voru þó alltaf skrefi á undan og leiddu með 5 stigum eftir fyrsta leikhluta 15-20. Þórsarar komu sterkir inní 2.leikhluta og tóku gott áhlaup og komust yfir 23-22 svo að Ágúst Björgvinsson fékk nóg og tók leikhlé sem skilaði ekki miklu en Þórsarar héldu áfram að spila frábæran körfubolta og sterka vörn. Ágúst neyddist til að taka annað leikhlé enda var varnarleikur Vals ekki upp á marga fiska í 2.leikhluta og gengu Þórsarar á lagið. Staðan í hálfleik 37-29 heimamönnum úr Þorlákshöfn í vil. Fyrri hálfleikur einkenndist af alveg hræðilegri 3ja stiga nýtingu beggja liða en Þórsarar fóru með 4/24 inn í hálfleikinn og Valsarar 1/11. 

 

Gestirnir komu af miklum krafti inní seinni háfleikinn og opnuðu 3.leikhluta með 12-2 áhlaupi og voru búnir að jafna leikinn. Valsmenn voru komnir yfir en Kóngurinn úr Þorlákshöfn Davíð Arnar Ágústsson ísaði gestina með þremur risastórum þristum í röð. Allt annað var að sjá til liðanna í seinni hálfleik, mikill hraði og mikið fjör. 4.leikhluti byrjaði frekar rólega en Austin Magnus Bracey var frábært í leikhlutanum og hleypti miklu lífi í hann og gaf Völsurum von, sóknarleikur Þórsara rúllaði þó vel og voru heimamenn alltaf með yfirhöndina. Þórsarar héldu út og lönduðu sterkum sigri 78 – 68.

 

Þáttaskil

 

Þáttaskilin urðu í raun og veru í 2.leikhluta þegar Þórsarar hertu vörnina og unnu leikhlutan 22-9 og byggðu upp forystu sem þeir náðu að halda út leikinn. Valsmenn fá þó mikið hrós fyrir baráttu og vel spilaðan leik.

 

Tölfræðin lýgur ekki

 

Þjálfarar beggja liða ganga sennilega ekki sáttir frá velli með nýtingu sinna liða fyrir utan 3ja stiga línuna. Hún skánaði með leiknum en til að byrja með var þetta algjörlega sturlað, hvorugt lið gat skorað úr 3ja stigu körfu en eins og ég sagði, þá skánaði þetta eftir sem leið. 

 

Hetjan

 

Hetjan í leiknum í dag fer til Davíðs Arnars Ágústssonar leikmanns Þórs. Davíð setti niður stórar körfur sem kveiktu í heimamönnum og hleyptu lífi í þá á erfiðum tímapunkti.

 

Kjarninn

 

Þórsvörnin skilaði þessum í dag, hún byrjaði ekki góð en þeir tóku sig mikið á í 2.leikhluta sem spilar stóra rullu í sigri heimamanna í dag. 

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Axel Örn Sæmundsson