Viðar Örn, þjálfari Hattar, gat séð jákvæða punkta þrátt fyrir tap:

 

Viðar, þú getur væntanlega séð eitthvað jákvætt í þessum leik þrátt fyrir tap?

 

Jájá, það er alltaf eitthvað jákvætt. Sérstaklega sóknarlega, þar var oft á tíðum margt jákvætt og ágætis flæði hjá okkur. En við þurfum að bæta okkur varnarlega, við erum alltof flatir og viljalausir. Til þess að vinna lið sem er með betri einstalinga og meiri talent en við þá þurfum við að spila betri varnarleik og berjast meira fyrir þessu. 

 

Mér fannst koma af og til varnir þar sem þið lituð bara vel út, stáluð nokkrum boltum, en svo var eins og algert einbeitingarleysi hafi plagað ykkur þess á milli?

 

Þetta var svolítið svoleiðis, við erum bara ekki alveg nógu góðir til að halda út í heilan leik. Við tökum of djúpar dýfur ennþá og það er það sem við þurfum að laga. Við erum svolítið eins og ofdekraðir krakkar, við viljum fá allt upp í hendurnar en við þurfum að vinna fyrir hlutunum. 

 

Nýjasti Kaninn ykkar, Lewis, virðist vera býsna góður – ertu ánægður með hann?

 

Já, ég er ánægður með hann. Hann er gæða leikmaður og á eftir að gera liðið okkar betra. Þetta ræðst auðvitað ekki á kaupum á einum leikmanni en hann á eftir að hjálpa okkur en við þurfum allir sem standa að liðinu að vinna saman og reyna að fylla í þau skörð sem eru í okkar leik og miðað við leikinn í kvöld þá einkum varnarlega.

 

Nánar má lesa um leikinn hér. 

 

Viðtal / Kári Viðarsson