Valsmenn unnu ÍR 76-90 í Hertz-Hellinum í Seljaskóla í kvöld. 

 

ÍR og Valur mættust í Hertz-Hellinum í Seljaskóla í sjöundu umferð Domino´s deildar karla í kvöld. ÍR, sem hafði ekki tapað í níu heimaleikjum í röð fyrir leikinn í kvöld, hafa gert Hertz-Hellinn að miklu vígi en í kvöld sáu þeir aldrei til sólar. Valsmenn sigruðu þá örugglega 76-90.

 

Það var aðeins í blábyrjun sem ÍR-ingar höfðu forystu í leiknum í kvöld. Eftir tvær laglegar þriggja stiga körfur frá Kristni Marinóssyni keyrðu Valsmenn upp hraðann, komust yfir og litu aldrei til baka. Þeir spiluðu stífan og agaðan varnarleik sem virtist slá ÍR-inga út af laginu. Sóknarleikur Vals var hraður og skemmtilegur og hittni þeirra var mjög góð.

 

Mótlætið virtist fara mikið í taugarnar á heimamönnum og í stað þess að spila sinn leik var sóknarleikurinn tilviljunarkenndur og árangurinn eftir því. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 15-32 Valsmönnum í vil. Sama var upp á teningnum í öðrum leikhluta. Valsmenn keyrðu yfir lánlausa ÍR-inga með Urald King fremstan í flokki og náðu mest 24 stiga forrystu. Staðan í hálfleik var 33-54 Valsmönnum í vil. Tölur sem Breiðhyltingar og Ghettó Hoolligans eiga ekki að venjast.

 

Valsmenn héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og spiluðu hraðan og skemmtilegan sóknarbolta. Hjá ÍR fór allt í gegnum Ryan Taylor og Danero Thomas en aðrir leikmenn voru langt frá sínu besta. ÍR-ingar náðu að minnka muninn undir lok þriðja leikhluta og var farið að draga aðeins af Valsmönnum.

 

Stemmning var komin í áhorfendur og léttu Ghettó Hooligans vel í sér heyra. Um miðbik fjórða leikhluta náðu ÍR-ingar að minnka muninn niður í 9 stig og eygðu heimamenn von á að saxa enn meira á forskotið. Svo fór þó ekki og Valsmenn sigruðu að lokum með 76 stigum gegn 90.

 

Stigahæstur í liði Vals var Urald King með 31 stig og 14 fráköst. Þá var Austin Magnús Bracey með 19 stig og 8 fráköst. Hjá ÍR var Ryan Taylor með 29 stig og 14 fráköst og Danero Thomas 14.

 

Hvers vegna sigraði Valur

 

Valsmenn spiluðu gríðarlega vel í kvöld og segja má að liðsheildin hafi skilað þessum sigri. Þeir spiluðu hraðan og skemmtilegan sóknarbolta og pressuðu stíft í vörninni. Þeir skiptu ört þannig að leikmenn fengu góða hvíld inn á milli. Fátt gekk upp hjá ÍR í kvöld og vantaði framlög frá fleiri leikmönnum en Ryan Taylor og Danero Thomas.

 

Tölfræði leiksins.

 

Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson) 

 

Sagt eftir leik – þjálfarar liðanna

 

Spurning: Ertu ánægður með leik þinna manna?

Borche Ilievski Sansa þjálfari ÍR.

 

„Nei, ég er mjög óánægður með leik minna manna í kvöld. Ég var búinn að vara mína leikmenn við liði Vals. Þeir eru með mjög gott lið, mjög skipulagðir og agaðir og góðir íþróttamenn. Þeir eru sennilega með eitt besta frákastalið deildarinnar. Við héldum okkur ekki við okkar skipulag. Við vorum óagaðir í sókninni og tókum margar slæmar ákvarðanir. Við vorum taugaóstyrkir og tókum mikið af slæmum skotum. Þegar upp er staðið áttu Valsmenn sigurinn skilið og við ég óska þeim til hamingju með það. Við þurfum að reyna að læra af þessu og standa okkur betur í næsta leik.“

 

Ágúst Björgvinsson þjálfari Vals.

 

„Ég er mjög ánægður með úrslitin og við spiluðum á köflum alveg svakalega vel í þessum leik bæði í vörn og sókn og margir að leggja í púkkið.“

 

Spurning: Þið spiluðuð ansi grimman og hraðan leik í fyrri hálfleik. Varstu aldrei smeykur um að þið mynduð keyra ykkur út?

 

„Nei alls ekki, við höfum spilað svona í allan vetur. Við spilum á mörgum mönnum og það eru allir tilbúnir til þess að koma inn og leggja sitt af mörkum og þegar það er þannig þá erum við ekkert hræddir um að menn springi því það eru allir að fá hvíldina.“

 

 

Umfjöllun og myndir / Þorsteinn Eyþórsson