Valur tók í kvöld á móti Stjörnunni í Domino’s deild karla. Valsarar unnu í síðustu umferð sinn fyrsta sigur í deildinni gegn Hetti en Stjörnumenn voru í þriggja leikja taphrinu eftir sigurleik gegn KR í annarri umferð. Eftir afskaplega kaflaskiptan leik fór svo að Valsarar unnu leikinn í framlengingu, lokatölur 110-104.

 

Lykillinn

 

Stjörnumenn voru sjálfum sér verstir í kvöld. Valsmenn náðu 17 stiga forskoti í upphafi þriðja leikhluta og Stjörnumenn virtust einfaldlega ekki mættir á svæðið á þeim tímapunkti. Þrátt fyrir að hafa grafið sér þessa holu náðu gestirnir heldur betur að klóra sig upp úr henni og þegar tæp mínúta var til leiksloka leiddu Garðbæingar með sjö stigum. Þá tók við ótrúlegur kafli þar sem Valsmenn náðu að saxa niður forskotið. Stjörnumenn voru ótrúlegir klaufar á þessum kafla og misstu boltann kjánalega trekk í trekk, sem heimamenn nýttu sér vel. Þegar sjö sekúndur voru til leiksloka höfðu gestirnir þó tveggja stiga forystu eftir sniðskot Róberts Sigurðssonar, en Urald King náði að tryggja heimamönnum framlengingu með flautukörfu. Í framlengingunni sigu heimamenn hægt og rólega fram úr og unnu að lokum sex stiga sigur.

 

Hetjan

 

Þeir Austin Bracey og Urald King voru allt í öllu hjá Val og skoruðu samtals 66 stig fyrir heimamenn. King var þó hetja þeirra í kvöld þar sem hann tryggði þeim framlengingu. Hjá Stjörnunni var Róbert Sigurðsson langbestur með 29 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar og að öðrum ólöstuðum var það Róberti að þakka að Stjörnumenn komust í þá stöðu sem þeir glutruðu svo niður.

 

Framhaldið

 

Liðin eru nú jöfn að stigum, með tvo sigurleiki hvort. Stjarnan tekur í næstu umferð á móti Þór Akureyri, á meðan Valsarar sækja ÍR heim.

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Ólafur Þór Jónsson)

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson

Myndir / Ólafur Þór Jónsson