Æsispennandi leikur átti sér í stað í Hertz-Hellinum í Breiðholtinu í kvöld. Ármenningar sóttu ÍR-stelpurnar heim og náðu næstum því að landa fyrsta sigrinum sínum á tímabilinu. Þær misstu þó niður forystuna í venjulegum leiktíma og í framlengingu þurftu þær að sætta sig við tap eftir að lokaskot heimaliðsins fór niður og lokastaðan var því 54-52, ÍR-ingum í vil.
 

Ármenningar mættu til leiks með aðeins 8 leikmenn og undirritaður bjóst satt að segja ekki við miklum leik. Annað kom á daginn og gestirnir virtust mættar alveg frá fyrstu mínútu. Liðin skiptust á forystu allan leikinn og það var mikil barátta í fáliðuðum Ármenningum sem skilaði sér í að þær leiddu með 2 stigum í hálfleik, 23-25. 

ÍR mætti aðeins beittari í seinni hálfleik og hófu þriðja leikhlutann á því að skora 5 stig á fyrstu mínútunni. Þá setti Ármann aftur í gírinn og skoruðu 10 stig í röð á næstu 4 mínútunum. Heimastúlkurnar voru mikið að brjóta í þessum fjórðungi sem sendi gestina oft á línuna og Ármenningar náðu að nýta nægilega mörg vítaskot til að hafa forystuna þegar fjórði leikhlutinn hófst, 36-37.

Áfram skiptust liðin á forystunni í fjórða og þegar mínúta lifði venjulegs leiktíma setti Stefanía Ósk Ólafsdóttir sniðskot og fékk villu þar að auki. Þá tók Ólafur Jónas leikhlé til að brýna stelpurnar sínar og þær náðu með herkjum að merja framlengingu, 44-44.

Í framlengingunni tóku Ármann 4 stiga forystu og héldu muninum þar í fjórar mínútur. Þær gátu því miður ekki haldið út lengur en það og á seinustu mínútunni skoruðu ÍR sex stig í röð til að vinna gestina sem tóku nokkrar óráðlegar ákvarðanir á lokametrunum. Lokastaðan 54-52 fyrir ÍR-ingum.
 

Þáttaskil

Á lokamínútu framlengds leiktíma tók Ólafur Jónas þjálfari ÍR leikhlé og sagði stelpunum að leita inn í teig til að fá öruggar körfur eða vítaskot. Þær hafa hlustað á hann því að þær fengu í næstu sókn körfu og eitt vítaskot að auki (svokallað "And-1") sem kom þeim í höggfæri til að klára leikinn á lokaskoti Birnu Eiríksdóttur sem rataði rétta leið.
 

Hetjan

Tvær í ÍR-liðinu eiga hetjutitil kvöldsins skilið; Nína Jenný Kristjánsdóttir átti frábæran leik en hún skoraði 17 stig, tók 10 fráköst (þ.a. 6 sóknarfráköst) og varði 3 skot. Það sem skiptir samt meira máli er þó að hún skoraði 4 seinustu stigin sem komu leiknum í framlengingu og svo kom hún ÍR-ingum síðan í kjörstöðu til að stela leiknum á lokasekúndu framlengingarinnar. Þar kemur hin hetjan inn, Birna Eiríksdóttir. Hún setti þriggja stiga skot á seinustu sekúndunni til að vinna leikinn fyrir liðið sitt. Hún tók þetta skot óhrædd þrátt fyrir að hafa verið ísköld í leiknum, en þetta var aðeins annað skotið hennar í leiknum sem fór niður (hún hitti úr tveimur skotum af 17 í leiknum, 1 af 9 í þristum).
 

Tölfræðin lýgur ekki

Bæði lið voru með arfaslaka skotnýtingu í leiknum (25% hjá ÍR og 28% hjá Ármanni) en ÍR-ingar fengu 20 fleiri skot utan af velli og það var í lokin það sem skipti máli. Vítanýting beggja liða var hundslöpp en Ármann fékk fleiri tækifæri þar (7/14 hjá ÍR og 11/21 hjá Ármann, 50% vs. 52%) og gætu hafa lokað leiknum með aðeins nokkrum fleiri vítaskotum niður.
 

Kjarninn

Mjög einkennilegur leikur þar sem bæði lið hittu illa en hann var samt spennandi og skemmtilegur. ÍR þarf augljóslega að hysja upp um sig í skotnýtingunni ef þær vilja eiga séns í Fjölni og mega telja sig heppnar að hafa unnið þennan leik gegn Ármanni. Ármenningar sýndu hvers þær voru megnugar í þessum leik þrátt fyrir slaka skotnýtingu, þær voru í leiknum allan tímann og börðust vel. Reynsluleysi undir lokin tapaði leiknum en þær læra af þessum leik og sjá kannski núna að þær geta alveg unnið nokkra leiki ef þær mæta einbeittar.
 

Tölfræði leiksins
 
Viðtöl eftir leikinn:
Birna: Var búin að ákveða að ég ætlaði að setja hann niður
Ólafur Jónas: Frábær karakter hjá stelpunum
Karl: Þetta verður bara til að gera liðið sterkara
 
Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson