Breiðablik tók á móti Stjörnunni í Smáranum í 9. umferð úrvalsdeildar kvenna í kvöld. Stjarnan hafði ekki erindi sem erfiði á sterkum heimavelli Blikanna og lutu í lægra haldi fyrir Blikastúlkunum, 74-70
 

Gangur leiksins

Blikar hófu leikinn miklu betur og komust í tveggja stafa forystu fljótlega gegn vanstilltri vörn Stjörnustúlkna þrátt fyrir að gestirnir tækju leikhlé snemma í fyrsta leikhluta til að ræða sín á milli. Staðan eftir fyrstu 10 mínúturnar var 22-10. Stjarnan vaknaði loks í öðrum leikhlutanum, þær fóru að spila betri vörn og urðu beittari í sókninni. Danielle Rodriguez tók yfir leikhlutann að miklu leyti og átti þátt í 20 af 24 stigum liðsins síns (skoraði eða átti stoðsendingu). Breiðablik hikstaði aðeins sóknarlega í öðrum og hleyptu gestunum aftur inn í leikinn þannig að staðan í hálfeik varð 36-34, heimamönnum í vil.

Stjörnustelpur hófu seinni hálfleikinn mjög vel og hittu úr fyrstu 5 skotunum sínum, þ.a. þremur þriggja stiga skotum. Skyndilega höfðu þær nokkurra stiga forystu og þá var komið að Breiðablik að herða sig aðeins. Í stöðunni 43-50 tóku þær græn- og hvítklæddu 12-2 áhlaup á seinni fimm mínútum þriðja leikhlutans og staðan þegar fjórði hófst var því 55-52, Blikum í vil. Æsispennandi lokafjórðungur tók við þar sem liðin skiptust ýmist á að vera með forystuna eða að vera hnífjöfn að stigum. Heimastúlkurnar náðu þó klára leikinn rétt og skiluðu 4 stiga sigri, 74-70.
 

Þáttaskil

Þegar tæpar 5 mínútur lifðu leiks í stöðunni 63-64 tóku Blikar sig til og skoruðu 11 stig gegn 3 stigum Stjörnunnar á næstu 4 mínútunum. Allt virtist ganga upp hjá Breiðablik á meðan að Stjarnan gat ekki keypt sér körfu. Þó að gestirnir næðu að laga stöðuna undir lokin með þristi þá þurftu þær að sætta sig við tap. Heimaliðið átti einfaldlega seinasta áhlaupið og það var það sem skipti máli.
 

Hvað segir tölfræðin?

Leikurinn var mjög jafn samkvæmt tölfræðinni, Stjarnan tók 51 fráköst gegn 50 fráköstum Blika og þær hittu aðeins betur úr skotunum sínum (36% gegn 35%). Breiðablik fékk hins vegar fleiri skot í leiknum sem kom til vegna þess að þær töpuðu aðeins færri boltum (13 gegn 18) og tóku aðeins fleiri sóknarfráköst (18 gegn 15). Þó að það virðist ekki vera mikill munur þá er það nóg í svona naumum leik og það var að lokum það sem skipti máli.
 

Leikmenn kvöldsins

Erlendir leikmenn liðanna, Ivory Crawford hjá Breiðablik og Danielle Rodriguez hjá Stjörnunni, voru framlagshæstar að þessu sinni (eins og oft áður). Ivory skoraði 24 stig, tók 14 fráköst, gaf 8 stoðsendingar, stal 4 boltum og varði eitt skot á meðan að Dani, eins og hún er jafnan kölluð, skoraði 29 stig, tók 11 fráköst, gaf 8 stoðsendingar, stal 5 boltum og varði 3 skot. Dani var framlagshærri (40 framlagsstig) en Ivory (34 framlagsstig) en það skilaði liðinu hennar ekki sigri í kvöld.
 

Kjarninn

Breiðablik eru áfram að sýna að þær eru illvígar á heimavelli og standa nú jafnar að stigum með Stjörnunni og Keflavík sem eru í 4. og 5. sæti deildarinnar. Nýliðarnir eiga séns í topp fjögur sæti í deildinni ef þær halda áfram að verja heimavöllinn og stela einum og einum útisigri. Stjarnan hefur aðeins misst flugið eftir gott upphaf en eru ennþá með einn besta erlenda leikmann deildarinnar og marga sterka leikmenn sem verða að bakka hana Dani betur upp í leikjum sem þessum.
 

Tölfræði leiksins
Myndasafn: Karol G?ogowski?
Viðtöl eftir leikinn:

 

 
 

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Karol G?ogowski?