Toppslagur átti sér stað í 1. deild karla í Smáranum í kvöld þegar Breiðablik tók á móti Skallagrími, en þessi lið eru í 1. og 2. sæti deildarinnar. Vel var mætt á leikinn, en varlega áætlað þá mættu rúmlega 200 manns á þessa æsispennandi viðureign. Breiðablik vann að lokum 102-92 eftir að hafa verið mest 25 stigum yfir.
 

Blikar byrjuðu leikinn með offorsi og skoruðu strax 7 stig áður en gestirnir náðu að svara með einni einustu körfu. Þegar heimamenn höfðu skorað 4 stig í viðbót tók Finnur Jónsson, þjálfari Skallagríms, fyrsta leikhléið sitt í stöðunni 11-2. Það gerði þó lítið til að laga skorið en Breiðablik lauk fyrsta leikhlutanum með 33 stig gegn 15 stigum Borgnesinga.

Skallagrímsmenn mættu aðeins beittari í annan leikhlutann og náðu að minnka muninn aðeins á fyrstu 4-5 mínútunum. Þá hertu heimamenn sig aðeins og Finnur neyddist aftur til að taka leikhlé í stöðunni 46-32. Borgnesingar náðu ekki að laga stöðuna mikið en gátu þó komið nokkrum leikmönnum í Breiðablik í villuvandræði með vel sóttum villum á báðum endum vallarins. Fyrri hálfleiknum lauk 52-36, Kópavogsliðinu í vil.

Í seinni hálfleiknum héldu Blikar áfram að rúlla vel og komst munurinn mest upp í 25 stig í stöðunni 75-50. Skallagrímur náði aðeins að sækja í sig veðrið undir lokin með því að hitta fyrir utan þriggja stiga línuna, en þeir höfðu ekki hitt vel fyrir utan fram að því. Þegar rúmar 2 mínútur lifðu leiks setti Lárus unga leikmenn sína inn á og Skallagrímur kom muninum niður í 10 stig áður en leiknum lauk. Borgnesingar unnu seinni hálfleikinn 50-56 en það dugði ekki til í ljósi glæstrar frammistöðu Breiðabliks í upphafi leiksins. Lokastaðan: 102-92 fyrir Blikum.
 

Þáttaskil

Í leik þar sem annað liðið opnar leikinn með 33 stiga leikhluta er kannski ekki um ákveðin þáttaskil að ræða í leiknum. Það næsta sem gæti komist slíku var í miðjum öðrum leikhlutanum þegar Skallagrímsmenn komust í að vera 10 stigum frá Breiðablik og gátu jafnvel lagað stöðuna meira fyrir hálfleik. Þá hertu Blikar sig bara og jóku muninn aftur. Munurinn varð ekki aftur 10 stig fyrr en á lokamínútunum þegar Lárus Jónsson setti unglingasveitina inn á og Skallarnir náðu að laga stöðuna aðeins.
 

Hetjan

Jeremy Herbert Smith og Ragnar Jósef Ragnarsson áttu báðir mjög góðan leik fyrir Breiðablik og mega deila hetjutitli dagsins. Jeremy var illvígur að sækja inn í teig andstæðinganna og uppskar 34 stig, 13 fráköst, 9 fiskaðar villur, 3 stoðsendingar og tvo stuldi og tvö varin skot. Ragnar Jósef var sjóðandi fyrir utan þriggja stiga línuna og setti 7 af 12 í þristum (58% þriggja stiga nýting). Hann lauk leik með 30 stig, 3 fráköst, 2 stoðsendingar og einn stolinn bolta. 
 

Tölfræðin lýgur ekki

Skotnýtingin var ekki nógu góð hjá Skallagrím (31/83 í skotum utan af velli, 37%) á meðan að Breiðabliksmenn settu yfir helming skotanna sinna utan af velli (37/68, 54%). Heimamenn tóku 12 fleiri fráköst en gestirnir sem er svo sem eðlilegt ef litið er til skotnýtingar liðanna.
 

Kjarninn

Blikar sýndu að þeir hafa miklu fleiri sóknarvopn en Borgnesingar sem er að lokum það sem vann leikinn. Ef Skallagrímur lokaði teignum létu Breiðabliksmenn finna fyrir sér í þristum og ef þeir fóru út í skytturnar fór boltinn inn á stóru mennina. Erfitt að vinna þegar liðið er að hitta svona vel og byrjar leikinn svona sterkt. Þá er ljóst að Breiðablik er topplið deildarinnar og það er undir hinum liðunum í deildinni komið að velta Blikunum af hásætinu.
 

Tölfræði leiksins
Myndasafn
 
Viðtöl eftir leikinn:
Lárus: Náðum að nýta styrkleika okkar undir körfunni
Finnur Jóns: Þurfum að kíkja í bækur Guðmundar Sigurðssonar skólastjóra og læra varnarreglurnar
Ragnar Jósef: Datt á góðan dag í dag
 
Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson