Þór 64 – KR 93

 

Það var á brattan að sækja fyrir Þórsstúlkur í kvöld þegar þær tóku á móti toppliði KR í sjöttu umferð 1. deildar kvenna í körfubolta en KR hafði 29 stiga sigur 64-93. 

 

Það voru Þórsarar sem skoruðu fyrstu stig leiksins eftir nærri tveggja mínútna leik og stigið kom af vítalínunni þegar Heiða Hlín hitti úr öðru af tveim skotum 1-0 og var það í eina sinn sem Þór var yfir í leiknum. KR svaraði þessu með því að setja niður næstu ellefu stig og breyttu stöðunni í 1-11. Gestirnir bættu svo heldur í og unnu leikhlutann með þrettán stigum 14-27. Þórsurum gekk afar illa að skora en hitni gestanna var góð.

 

Hvorki gekk né rak hjá Þór í öðrum leikhluta leikmönnum virtist fyrirmunað að skora á meðan allt lék í lyndi hjá þeim röndóttu sem gengu á lagið og þegar 3:47 voru búnar að öðrum leikhluta var forskot KR komið í 22 stig 17-39. Munurinn hélst áfram öðrum hvoru megin við 20 stigum en undir lok annars leikhluta tókst Þór að koma muninum niður í 16 stig 30-46 og þannig var staðan í hálfleik. 

 

Ágætis sprettur Þórs undir lok fyrri hálfleiks gaf heimakonum von um að nú færu hlutirnir að ganga betur. En annað átti eftir að koma á daginn. KR hélt áfram uppteknum hætti í þriðja leikhluta og nýttu sér slaka hitni Þórs og juku forskotið jafnt og þétt og þegar um tvær mínútur voru eftir að þriðja leikhluta var forskot gestanna komið í 32 stig 37-69. KR vann leikhlutann 11-30 og leiddu með 35 stigum þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst 41-76. 

 

Þórsliðið sem hafði hitt mjög ill í leiknum tók ágætis kipp í loka fjórðungnum og í komust hvað næst því í kvöld að sýna hvað í liðinu býr. Þór vann leikhlutann með fimm stigum 23-17 en það breytti litlu og KR landaði öruggum 29 stiga sigri 64-93. 

 

KR liðið er um þessar mundir ógnar sterkt og fátt virðist geta stöðvað liðið sem er taplaust á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir sex leiki og 12 stig. 

 

Það gladdi stuðningsmenn Þórs að sjá Helgu Rut í leik á heimavelli en og ekki síður sú staðreynd að Unnur Lára Ásgeirsdóttir sem var hætt að æfa tók fram skóna í liðinni viku og er nú mætt til leiks. Hún sýndi gamalkunna takta í kvöld en ljóst er að ögn vantar upp á formið hjá henni. Hún skoraði þó 10 stig tók 7 fráköst og var með 4 stoðsendingar. 

 

 

Það var þó Heiða Hlín Björnsdóttir sem var stigahæst með 24 stig og 4 fráköst, önnur í röðinni var svo Unnur Lára. Hrefna Ottósdóttir var drjúg í kvöld og skoraði 9 stig var með 5 fráköst og 3 stoðsendingar, Helga Rut var með 8 stig og 5 fráköst. Þá voru þær Gréta Rún, Alexandra Ósk og Sædís Gunnarsdóttir með 3 stig hver, Árdís Eva og Særós Gunnlaugsdóttir 2 stig hvor. 

 

Hjá KR var Perla Jóhannsdóttir stigahæst með 22 stig 7 fráköst og 6 stoðsendingar, Desiree Ramos var með 18 stig 10 fráköst og 5 stoðsendingar. Eygló Kristín Óskarsdóttir 12 stig og 7 fráköst, Unnur Tara var með 9 stig og 12 fráköst, Þorbjörg Andrea 7 stig, Jenný Lovía 5 stig. Þóra Birna, Ástrós Lena og Gunnhildur Bára með 4 stig hver. Marín Matthildur 3 stig og Emilía Bjarkar Jónsdóttir með 2 stig. 

 

Þórsliðið náði sér ekki á strik í kvöld og því fór sem fór. En taka verður ofan fyrir leikmönnum Þórs sem létu mótlætið ekki fara í skapið á sér heldur héldu áfram með jákvæðnina að vopni sem skilaði sér loks í fjórða leikhluta sem því miður fyrir þær var of seint. KR liðið gerði það sem ætlast er til af toppliðum þ.e. að landa sigri. 

 

KR er sem fyrr á toppi deildarinnar með 12 stig, Fjölnir og Grindavík í 2. – 3. sæti með 8 stig og Þór í fjórða sætinu með 6 stig. 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Palli Jóh)