Það var engu líkara en vinirnir Tommi og Jenni væru mættir til leiks í byrjun leiks Grindavíkur og Keflavíkur í 16-liða úrslitum Malt-bikarkeppni KKÍ í dag.  Slíkir voru yfirburðir Keflavíkurstúlkna og eðlilega kannski og aðallega þar sem Grindavík getur ekki ennþá teflt Angelu Rodriquez sem leikmanni.  Ekki vænkaðist svo hagur Strympu þegar Embla fékk sína aðra óíþróttamannslegu villu þegar tæpar 2 mínútur lifðu fyrri hálfleiks og þ.a.l. reisupassann.

 

Þáttaskil

 

Þáttaskilin einfaldlega þau að Keflavík byrjaði leikinn strax af krafti og sáust tölur eins og 7-23 í byrjun.  Grindavíkurstelpur réttu hlut sinn eilítið og munaði bara 8 stigum eftir 1. leikhluta, 15-23.  Sverrir messaði þá rækilega yfir sínum stelpum og áður en varði var munurinn kominn upp aftur, 17-40.  Einhvern tíma hefði mátt telja brottrekstur Emblu til þáttaskila en munurinn var svo mikill að það skipti ekki öllu máli.  Gestirnir bættu jafnt og þétt í og unnu öruggan sigur, 43-96. 

 

Tölfræðin lýgur ekki

 

Enda hverju ætti tölfræðin svo sem að ljúga eftir svona upprúllun?

Sverrir ákvað greinilega að keyra þennan leik á öllum sínum mannskap og spiluðu allir leikmenn nánast sama mínútufjölda.

Framlagshæstar Keflvíkinga voru Brittany með 21 punkt, en nb. á einungis rúmum 10 mínútum!  Þóranna Kika sem kom af bekknum skilaði 20 punktum.

Erfitt að taka einhverja út úr Grindavíkurliðinu en þær fengu vonandi góða reynslu út úr þessum leik sem nýtist þeim vonandi seinna meir.

 

Hetjan

 

Tja, hvað skal segja………

Alla vega ekki Sverrir Þór þjálfari Keflavíkur ef Angela Rodriquez þjálfari Grindavíkur fær að velja…..   Sverrir lét sínar stelpur pressa miskunarlaust meira og minna allan leikinn þótt hans stelpur væru með mjög örugga forystu, við litla hrifningu kollega síns hinum megin en Angela kallaði oft yfir; „Hey coach, why are you still pressing??“  En Sverrir er keppnismaður mikill og það er ekkert hálfkák á þeim bænum.

 

Kjarninn

 

Einfaldlega munurinn á milli Dominosdeildarliðs og liðs í fyrstu deild.  Og eins og áður kom fram þá er ekki til að bæta samanburðinn að Grindavík leikur ennþá Kanalaust en von er á Angelu í búninginn innan tíðar.

Fyrir Keflavík var einfaldlega um þægilegan göngutúr í garðinum að ræða og þær öruggar í 8-liða úrslitin.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Væntanlegt)

 

Umfjöllun / Sigurbjörn Daði Dagbjartsson