A-landslið kvenna mætti liði Svartfellinga í Laugardalshöllinni í dag í undankeppni EM 2019. Svartfjallaland hefur spilað á lokamátinu síðustu fjögur skipti og voru öruggar í sínum leik. Íslensku stelpurnar voru virkilega flottar á köflum í dag en það dugar ekkert minna en 40 mín af topp frammistöðu gegn svona sterkum andstæðingum.

Það var góð mæting í höllina í dag og umgjörð leiksins mjög flott. Það var sérstaklega gaman að sjá ungar körfuboltastelpur úr röðum Vals og Hauka leiða leikmenn inn á völlinn enda finnast vart betri fyrirmyndir fyrir unga iðkendur. Í byrjunaliði Íslands voru Helena Sverrisdóttir, Hildur Björg Kjartansdóttir, Þóra Krístín Jónsdóttir, Berglind Gunnarsdóttir og Ragna Margrét Brynjarsdóttir.

 

Svartfjallaland hefur átt lið á lokamóti EuroBasket síðan 2011 og léku þær einnig á HM nú í sumar. Íslensku stelpurnar voru þar með að leika við eitt sterkasta lið sem komið hefur til landsins. Það var engan ótta að sjá hjá okkar konum og opnaði Helena leikinn með þriggja stiga körfu. Það var jafnt á liðunum fyrstu mínúturnar en ekki mikið skorað. Þegar rétt um 4 mínútur voru liðnar af leiknum setti Helena Sverrisdóttir aftur þrist yfir varnarmanninn sinn, staðan orðin 10-12, og leikstjóri Svartfellinga tapaði boltanum strax í framhaldinu. Það var löngu ljóst að aðalþjálfari liðsins væri vægast sagt ástríðufullur fyrir sínu starfi en hann tók leikhlé um leið og stóð nær froðufellandi yfir sínum konum. Það greinilega virkaði vel en gestirnir komu mun grimmari til leiks úr leikhlé og skoruðu 6 stig á meðan okkar konur klikkuðu á sniðskotum og töpuðu boltanum klaufalega. Lokatölur leikhlutans voru Ísland 15 – 22 Svartfjallaland og höfðu tapaðir boltar, óþarfa villur og léleg skotnýting mikið að segja.

 

Annar leikhlutinn fór brösulega af stað og boltinn rataði lítið sem ekkert ofan í körfurnar á báðum endum vallar. Það tók Ísland hátt í 4 mínútur að komast á blað í leikhlutanum en á þeim tíma höfðu Svartfellingar að vísu einungis skorað 6 stig. Það var sjáanlegur pirringur hjá mörgum á vellinum og þá sérstaklega hjá gestunum sem fengu meðal annars sóknarvillu dæmda á sig tvær sóknir í röð, og það á sama leikmanninn. Það var hins vegar Sigrún Ámundadóttir sem virtist nóg hafa fengið og átti hún stigin 2 sem blésu örlitlu lífi í leik Íslands, staðan þá 17-28. Áfram var þó sami bragurinn á, bæði lið heldur klaufsk með boltann, nýtingin ekki nógu góð og villurnar að safnast upp fyrir á tímum litlar en fyrst og fremst óþarfa sakir.

Íslensku stelpurnar stigu þó upp og bitu vel frá sér en aftur var Sigrún á ferðinni með 2 stig um miðjan leikhlutann. Hlutirnir snérust þá heldur betur við, tvígrip var dæmt á Gloria Johnson sem lagðist ansi illa í jakkafataklædda manninn á hliðarlínunni sem froðufelldi þó ekki að þessu sinni. Ísland brunaði í sókn og Sigrún Sjöfn á ferðinni enn á ný. Í þetta skiptið var krafturinn það mikill að leikmaður 4 í liði Svartfjallalands lá eftir á gólfinu en hún virtist hafa fengið olnboga hressilega fast í andlitið en ekki um neitt annað en algjört óviljaverk að ræða. Leikurinn var ekki stöðvaður enda engin villa dæmd og kom Sigrún boltanum á Hildi sem kláraði sterkt undir körfunni. Á þessum tímapunkti var uppáhalds manni undirritaðrar nóg boðið, þjálfari Svartfjallalands var eðlilega mjög ósáttur með atvikið enda leit það ekki vel út. Fylgja þurfti hans leikmanni blóðugri af velli eftir að hún hafði legið á gólfinu í töluverða stund. Það var klárt mál að dómarinn hefði löngu getað flautað tæknivillu á manninn en í ljósi aðstæðna gerði dómarinn vel í að reyna fyrst að ná stjórn á mannskapnum. Það fór þó ekki betur en svo að þjálfari gestanna lét ekki segjast og vann hann sér inn tæknivillu með tilþrifaríkum handabendingum sem virtust gefa í skyn að dómarinn væri blindur. En látum þann karakter ekki stela senunni því áfram hélt leikurinn. Helena fór á línuna fyrir Ísland og setti tæknivítið niður. Þóra Kristín kórónaði svo sóknina en hún setti niður risa stóran þrist eftir innkastið. Ísland skoraði þar með 6 stig í heildina í þessum sirkus, munurinn allt í einu ekki nema 5 stig í stöðunni 25-30.

Áhlaupið var skammlíft en Jelena Dubljevic tók málin í sínar hendur. Það fór ekki á milli mála hver besti leikmaður vallarins væri en hún skoraði næstu 8 stig leiksins. Það er ekki á hverjum degi stelpurnar okkar mæta leikmönnum af þessari hæð sem í þokkabót eiga meistaratitil í WNBA á bakinu. Þegar 12,5 sekúndur voru eftir af leikhlutanum var svo toppinum náð í undarlegheitum en þá dæmdu allir þrír dómarar leiksins á sama tíma en gáfu 3 mismunandi merki. Einn ætlaði að dæma villu á Hildi Björgu, annar flautaði dómarakast og sá þriðji blés í flautuna með uppréttan lófa en gaf svo ekkert meir í skyn. Svo fór að þeir sættust á að um dómarakast væri að ræða og fékk Ísland boltann. Ekkert kom út úr lokasókninni og hálfleikstölur 32-39 og vert að minnast á það að 11 af 12 leikmönnum Íslands höfðu þá komið inn á í leiknum.

 

Það kom í hlut þriðja leikhlutans að skilja liðin að. Íslensku stelpurnar mættu með flott orkustig úr klefanum en það gekk hins vegar lítið að koma boltanum í körfuna. Það var lítið í gangi fyrstu mínúturnar, staðan 36-44 eftir um 3 mín, og það var ekki fyrr en tæknivilla fyrir leikaraskap var dæmd á Svartfellinga að tölfræðin lifnaði aðeins við. Því miður var það þó ekki til góðs fyrir okkar lið en þessi leikhluti varð þeim í raun að falli. Jelena Dubljevic hélt áfram að nýta hæðina inni í teig og munurinn allt í einu rokinn upp. Hildur Björg átti síðustu körfu Íslendinga í leikhlutanum þegar rúmar 4 mínútur af leiktíma voru eftir. Þær mínútur voru eign gestanna sem náðu muninum upp í 21 stig á meðan lykilleikmenn Íslands sátu á bekknum. Svartfjallaland sigraði leikhlutann 8-22 og staðan því orðin 40-61.

 

Líkurnar voru ekki með íslenska liðinu fyrir síðasta leikhlutann. Þær mættu vissulega ansi seigar úr leikhlé en munurinn var hreinlega orðin alltof mikill. Helena reif stemninguna í húsinu heldur betur upp þegar hún setti niður þriggja stiga körfu og fékk víti að auki. Ísland hélt út leikhlutann á fínu róli en það gerði Svartfjallaland líka og því hélst munurinn nokkuð óbreyttur allan tímann. Það stóð kannski fátt upp úr í leikhlutanum, leikmenn beggja liða voru eðlilega farnir að þreytast og í kjölfarið var mikið flautað á klaufalegar villur. Ekki er þó hægt annað en að gefa liði Íslands hrós fyrir að halda áfram og spila út allan leikinn. Vissulega hefði margt mátt fara betur en á sama tíma getur liðið og þjálfarar þess tekið margt jákvætt úr leiknum. 

 

Klisja verður víst ekki klisja af ástæðulausu en þarna mætta "litla Ísland" frábæru liði frá landi með sterka körfuboltahefð. Þegar leik lauk höfðu allir leikmenn Ísland fengið spilatíma og 9 leikmenn lagt til í stigaskori. Virkilega gaman að sjá svona margar fá tækifæri og sérstaklega spennandi að sjá Þóru Kristínu fá tækifæri í byrjunarliðinu og það í leikstjórnanda stöðunni sem Helena Sverrisdóttir hefur gjarnan leist af hendi, og það með sóma. Ísland er ekki með hávaxið lið, ekki frekar en karlamegin, og því var aðdáunarvert að sjá leiðtoga liðsins, áðurnefnda Helenu, taka að sér gjörólíkt hlutverk á vellinum þar sem hún nýtir hæð sína og styrk vel. Það gefur um leið leikmönnum á borð við Þóru tækifæri til að sýna hvað í henni býr en hún er á góðri leið með að fara úr því að vera einn efnilegast leikstjórnandi landsins í að verða einn besti leikstjórnandi landsins. Svona leikir fara beint í reynslubankann hjá stelpunum sem eru að stíga sín fyrstu skref með A-landsliðinu og á Ívar Ásgrímsson þjálfari hrós skilið fyrir að reyna hámarka getu sinna kvenna og nýta styrkleika hvers og eins þannig að sem flestir skili sínu.

 

Erfitt er að gera upp á milli tveggja bestu leikmanna Íslands varðandi valið á besta leikmanni. Helena Sverrisdóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir leiddu liðið í dag og spiluðu áberandi vel saman. Hildur var stigahæst með 23 stig og bætti þar við 6 fráköstum, 3 stolnum boltum og varði 1 skot. Helena var grátlega nálægt þrennu í kvöld en hún lauk leik með 21 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar. Besti leikmaður leiksins var klárlega títtnefnd Jelena Dubljevic, fyrirliði Svartfellinga, sem var frábær í dag með 30 stig, 6 fráköst og 2 varin skot. Það er greinilegt að reynslan spilar inn þarna en hún fékk einungis dæmda 1 villu á sig, var með 100% vítanýtingu í 8 skotum og var frábær en hún setti niður 11 af 13 skotum sínum fyrir innan þriggja stiga línuna.

 

Næst leikur lið Íslands gegn Slóvakíu á útivelli en sá leikur er á næstkomandi miðvikudag. Að lokum óskum við Helenu til hamingju með 65. landsleikinn og Sigrúnu sömuleiðis með sinn 50. landsleik.