Tindastóll tók á móti Haukum í skemmtilegum leik í Dominos deild karla í Síkinu í kvöld. Hvorugt liðið hafði byrjað mótið vel en Stólar voru á uppleið og höfðu unnið gríðarlega sterkan sigur í Grindavík í síðustu umferð. Haukar sýndu þó strax frá byrjun að þeir ætluðu að selja sig dýrt og komust í 12-2 með þrist frá Kára Jóns þegar rétt rúmar 2 mínútur voru liðnar af leiknum.
Heimamenn jöfnuðu í 14-14 með þrist frá Pétri Rúnari og voru svo komnir 5 stigum yfir þegar fyrsta leikhluta lauk með tveimur frábærum þristum frá Hannesi Inga sem átti frábæra innkomu. Þessar sveiflur áttu síðan eftir að halda áfram út leikinn en Haukar voru 8 stigum yfir í hálfleik eftir 15-0 kafla!
Heimamenn þurftu svar og það kom heldur betur því þeir unnu þriðja leikhlutann 29-13! Sóknin gekk smurt og vörnin var gríðarlega hreyfanleg. Haukarnir svöruðu þessu með því að skora fyrstu 8 stig lokaleikhlutans og jafna 63-63 en heimamenn voru sterkari á lokakaflanum og lönduðu sigri.
Þáttaskil
Í stöðunni 73-73 setti Arnar Björns risaþrist og í næstu sókn Hauka meiddist Kári Jónsson og þegar tvær og hálf mínúta eru eftir í jöfnum leik þá munar um minna. Kári hafði þó ekki verið að gera mjög mikið fram að því. Arnar sigldi sigrinum heim fyrir heimamenn og setti 6 víti í röð á lokamínútunni auk þess að taka sóknarfrákast og stela boltanum tvisvar.
Hetjan
Arnar Björnsson er maður leiksins fyrir frábæran varnarleik, fyrir að setja 26 stig, fyrir 100% vítanýtingu (10/10) og síðast en ekki síst fyrir þessa rosalegu lokamínútu sem áður er getið. Caird og Hester voru líka að skila góðum tölum og vert er að minnast á drifkraftinn sem býr í Helga Rafni fyrirliða liðsins sem reif félaga sína áfram, sérstaklega í seinni hálfleik.
Kjarninn
Heimamenn í Tindastól toppuðu á réttum tíma í sveiflukenndum leik.
Tölfræðin lýgur ekki
Hvergi mikill munur nema að Haukar töpuðu boltanum tvöfalt oftar en Tindastóll. Og það er talsverður munur
Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna
Mynd: Israel Martin og Chris Caird fagna sigrinum