Stjörnukonur tóku í kvöld á móti Haukum í fyrsta leik Domino’s deildar kvenna eftir landsleikjahlé. Fyrir leikinn voru þessi lið í 2. og 3. sæti og því von á hörkuleik. Körfuboltaunnendur voru ekki sviknir, því leikur kvöldsins var sannkallaður naglbítur. Eftir miklar sveiflur allan leikinn voru það Stjörnukonur sem stóðu uppi sem sigurvegarar, lokatölur 76-75, heimakonum í vil.

 

Liðin skiptu fyrstu tveimur leikhlutunum milli sín, Stjörnukonur höfðu 12 stiga forystu eftir þann fyrsta en eftir góðan annan fjórðung Haukakvenna höfðu Garðbæingar tveggja stiga forystu í hálfleik. Stjörnukonur byrjuðu þriðja leikhluta eins og þann fyrsta og voru fljótt komnar í 11 stiga forystu, áður en Hafnfirðingar minnkuðu muninn á ný. Fyrir lokafjórðunginn var munurinn áfram tvö stig, 56-54.

 

Fjórði leikhluti var eins sveiflukenndur og hinir þrír á undan. Eftir að liðin höfðu skipst á að hafa forystuna allan leikhlutann höfðu Haukar 4 stiga forystu þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Þegar einungis 6 sekúndur voru eftir höfðu gestirnir eins stig forystu, 75-74. Í þann mund sem tíminn var að renna út fór Dani Rodriguez upp í skottilraun.

 

Skotið geigaði, en dómarar leiksins dæmdu villu á Dýrfinnu Arnardóttur og Rodriguez fór því á vítalínuna þegar 0,3 sekúndur voru eftir af leiknum. Vítin fóru bæði ofan í og Stjörnukonur leiddu því með einu stigi með 0,3 sekúndur eftir á klukkunni. Haukar tóku leikhlé og freistuðu þess að knýja fram sigur. Skot Helenu Sverrisdóttur geigaði og Stjörnukonur fögnuðu því sigri með minnsta mögulega mun, 76-75.

 

Hetjan:

 

Dani Rodriguez var að sjálfsögðu hetja Stjörnukvenna í kvöld, en Rodriguez átti enn einn stórleikinn fyrir Garðbæinga, auk þess sem hún kláraði leikinn á vítalínunni. Rodriguez lauk leik með 26 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar og eina sigurkörfu.

 

Gott sjónvarp:

 

Leikurinn tafðist um fimm mínútur fyrir síðustu vítaskot leiksins, en tímavörður leiksins átti erfitt með að stilla klukkuna í þær 0,3 sekúndur sem voru eftir af leiknum. Leikklukkan í Ásgarði býður ekki upp á þann valmöguleika að stilla sekúndubrot og því þurftu starfsmenn leiksins að eyða nokkrum mínútum í að stilla klukkuna rétt af. Leikurinn var í beinni á Stöð 2 Sport og hefur þessi atburðarás eflaust verið frábær skemmtun fyrir áhorfendur heima í stofu.

 

Framhaldið:

 

Eftir leik kvöldsins eru liðin jöfn Skallagrími í 2. til 4. sæti deildarinnar með 10 stig. Næsti leikur Stjörnunnar er næstkomandi laugardag gegn Breiðabliki en á sama tíma fara Haukar í Ljónagryfjuna þar sem þær mæta Njarðvík.

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Bára Dröfn)

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

Umfjöllun og viðtöl / Elías Karl Guðmundsson

Myndir / Bára Dröfn