Ísland tapaði fyrir Tékklandi, 89-69, í fyrsta leik undankeppni heimsmeistaramótsins fyrr í kvöld í Tipsport Arena í Pardubice. Næst leikur liðið komandi mánudag heima í Laugardalshöllinni gegn liði Búlgaríu, en þeir unnu sinn fyrsta leik í riðlinum í kvöld gegn Finnlandi.

 

 

Byrjunarlið Íslands: Martin Hermannsson, Logi Gunnarsson, Jakob Sigurðrson, Haukur Helgi Pálsson & Hlynur Bæringsson

 

 

Gangur leiks

Í upphafi leiks leit íslenska liðið nokkuð vel út. Spiluðu virkilega góðan varnarleik, en voru þó litlu skrefi frá heimamönnum þegar að fyrsti leikhluti var á enda, 15-11.

 

Undir lok fyrri hálfleiksins bætti Tékkland aðeins í, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var munur þeirra kominn í 9 stig, 39-30.

 

Atkvæðamestir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru þeir Martin Hermannsson með 12 stig og Kristófer Acox með 6 stig og 6 fráköst.

 

Í upphafi seinni hálfleiksins ná heimamenn að halda í forystu sína. Þegar að þriðji leikhlutinn endaði var munurinn enn 9 stig, 60-51.

 

Í byrjun fjórða leikhlutans hristi Tékkland lið Íslands svo af sér. Þegar að 5 mínútur voru búnar af hlutanum var munurinn kominn í 18 stig, 74-56. Undir lok leiksins ná þeir svo að halda þessari forystu og fara að lokum með 20 stiga sigur af hólmi, 89-69.

 

 

Kjarninn

Alltof mikið álag var á þeim leikmönnum sem voru að gera vel fyrir Ísland í dag samanborið við það framlag sem heimamenn fengu frá sínu liði. Vörn íslenska liðsins hélt í upphafi, en alltof margir slakir kaflar þeim megin á vellinum hjá þeim urðu þeim að falli. Leikurinn var þó spennandi allt fram til byrjunar fjórða leikhluta. Maður hafði það á tilfinningunni að Ísland ætti inni í þessu óþarflega stóra tapi.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Skotnýting íslenska liðsins var jafn slæm úr djúpinu (4/24) og hún var góð af vítalínunni (23/24). Ef bara fleiri skot fyrir utan hefðu dottið fyrir Ísland, þá er aldrei að vita hvernig þessi leikur hefði farið.

 

 

Gekk ekki heill til skógar

Haukur Helgi Pálsson meiddist á öxl snemma í leiknum og náði lítið að beita sér. Stigalaus á þeim 27 mínútum sem hann þó spilaði, en líklegt er að meiðslin hafi haft þau áhrif.

 

 

Skoraði í sinni fyrstu sókn

Tómas Þórður Hilmarsson lék sinn fyrsta A landsliðsleik í kvöld. Kom inn á þegar að mínúta var eftir af leiknum og náði að setja körfu í sinni fyrstu sókn með liðinu.

 

 

Jákvætt

Bæði áttu Kristófer Acox og Kári Jónsson fínan leik fyrir Ísland í dag. Maður sér ekki fyrir sér að neitt annað en stórvægileg meiðsl komi í veg fyrir að þeir tveir, ásamt að sjálfsögðu Martin, verði einir af burðarásum þessa liðs í framtíðinni.

 

Hetjan

Martin Hermannsson var frábær fyrir Ísland í kvöld. Skoraði 29 stig, tók 2 fráköst, gaf 2 stoðsendingar og stal 2 boltum á þeim 37 mínútum sem hann spilaði. Kom sér í 15 skipti á vítalínuna og setti öll skotin niður.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Davíð Eldur

 

Viðtöl: