Liðin sem mættust í undanúrslitum Domions deildarinnar sl. vor, Grindavík og Stjarnan mættust í kvöld og eftir að þeir gulu höfðu veifað sópnum ótt og títt þá, þá ætluðu þeir bláklæddu eflaust að launa þeim gulu lambið gráa.  Það gerðu þeir svo sannarlega og sérstaklega var slátrunin slæm í opnunarleikhlutanum sem Stjarnan vann 8-22!  Fljótlega sást 8-28 en þá girtu heimamenn sig aðeins en 20 stigum munaði í hálfleik, 28-48.  Jóhann messaði greinilega vel yfir sínum mönnum í hálfleik og allt annað Grindavíkurlið mætti til leiks og vann 3. leihlutann 31-20.  Töluglöggir átta sig fljótt á að annar eins leikhluti hefði fleytt heimamönnum yfir endamarkið á undan Stjörnunni og um tíma leit út fyrir að þessi ótrúlega endurkoma yrði að veruleika eftir að Ingvi Þór minnkaði muninn í 73-77.  Eftir leikhlé Hrafns var fljótlega slökkt í þeim vonum.

 

Þáttaskil

 

Þáttaskilin komu furðulega fljótt í kvöld eða strax í fyrsta leikhluta.  Heimamenn gátu hvorki keypt sér körfu né stoppað og sá dúett hefur aldrei harmonerað vel…..  Gulir eiga þó hrós skilið fyrir að gera leik og minnka muninn í einungis 4 stig og rúmar 2 mínútur eftir en allt kom fyrir ekki og Stjörnusigur staðreynd.

 

Tölfræðin lýgur ekki

 

Eflaust biðu margir spenntir eftir einvígi miðherjanna en þeir hinir sömu fengu lítið fyrir sinn aur….  Hlynur tók Sigga Þorsteins einfaldlega í kennslustund og munaði heilum 41 framlagspunkti á þeim!  Hlynur með 40 og Siggi með -1.  

 

Hetjan

 

Hlynur var veralega BOLD á tölfræðiskýrslunni en hann leiddi nánast í öllum þáttum. Stigahæstur með 23 stig og tók heil 19 fráköst.  Magnaður leikmaður!

 

Hjá Grindavík bar stigalega mest á Rashad Whack en að mati undirritaðs var Ingvi Þór Guðmundsson besti leikmaður Grindavíkur.  Hann kveikti vonarneista í lokin með góðum körfum og stolnum boltum.  Gott fyrir Grindvíkinga að hann sé á leið upp úr þeirri lægð sem hann hefur verið í undanfarið.

 

Kjarninn

 

Eftir tapið í bikarnum á móti Njarðvík um daginn þar sem Bandaríkjamaður Grindvíkinga, Rashad Whack skoraði einungis 11 stig, þá hafa verið ansi skiptar skoðanir á ágæti leikmannsins.  Inn á milli sýnir hann flotta takta, eins og á móti KR þar sem hann klikkaði varla á skoti í 3. leikhluta en hins vegar virðist ansi mikið vera tekið frá honum ef skotið hans er ekki á.  Hann setti skitin 7 stig á móti Njarðvík um daginn en sérstaklega eru honum mislagðar hendur þegar hann keyrir upp að körfu.  Hann var fyrstur manna tekinn út af í kvöld og virtist Jóhann þjálfari ekki vera ánægður með hann.  Hann endaði svo sem með 28 stig en nokkuð ljóst er að hann þurfi að skila miklu meira og þá aðallega meiri stöðugleika, ef ekki á illa að fara fyrir honum.  Spurning hvort hinn lokaði gluggi sé happ hans en m.v. frammistöðuna undanfarið þá þyrfti ekki að koma á óvart þótt hann yfirgefi klakann brátt……

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Benóný Þórhallsson)

 

Umfjöllun / Sigurbjörn Daði Dagbjartsson