Snæfell sótti sigur á Ásvelli í kvöld þegar liðið atti kappi við Hauka í 10. umferð Domino‘s deildar kvenna. Eftir góða byrjun hjá Snæfelli þar sem gestirnir náðu mest 7 stiga forystu, komust heimakonur í Haukum yfir í stöðunni 17-16. Það reyndist þó vera eina skiptið í leiknum sem Haukar leiddu og sigraði Snæfell leikinn með 9 stigum, 68-77.  

Þáttaskil
Þrátt fyrir að Snæfell hafi leitt megnið af leiknum, þá hleyptu Haukar þeim aldrei of langt frá sér og áttu góð áhlaup að forskoti gestanna. Snæfell náði 11 stiga forystu snemma í seinni hálfleik en Haukar söxuðu jafn og þétt á forskotið eftir því sem leið á fjórðunginn. Tvö stig frá Önnu Lóu Óskarsdóttur í upphafi fjórða leikhluta settu muninn niður í tvö stig og leikurinn því galopinn. Snæfell reyndist hins vegar sterkari á lokasprettinum og náðu með yfirvegun að sigla heim sigrinum.

Tölfræðin lýgur ekki
Snæfellingar voru með mun betri nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna og settu niður 9 af 20 þriggja stiga skotum sínum á meðan Haukar skoruðu einungis úr 5 af 22 skotum. Að öðru leiti voru liðin nokkuð jöfn í helstu tölfræðiþáttunum, Haukar með ívið betri nýtinu í tveggja stiga skotum, Snæfell tók 49 fráköst á móti 43 fráköstum Hauka og tapaðir boltar 15 talsins hjá heimakonum en 16 hjá gestunum.

Hetjan
Kristen McCarthy var atkvæðamest Snæfells í kvöld með 38 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar. Þá skoraði Berglind Gunnarsdóttir 17 stig og tók 6 fráköst fyrir Snæfell og Alda Leif Jónsdóttir sem var mætt á parketið á ný, bætti við 9 stigum og setti hún niður öll þrjú þriggja stiga skot sín í leiknum.

Hjá Haukum skoraði Helena Sverrisdóttir 20 stig, tók 12 fráköst og gaf 7 stoðsendingar og Rósa Björk Pétursdóttir skoraði 16 stig og tók 8 fráköst.

Kjarninn
Sigurinn í kvöld var gríðarlega sterkur hjá fámennu liði Snæfells en einungis 9 leikmenn voru á skýrslu hjá Snæfelli og af þeim deildu 7 leikmenn með sér mínútunum. ?Deildin er gríðarlega jöfn því eftir leiki kvöldsins eru Haukar með 12 stig líkt og Stjarnan, Keflavík og Skallagrímur, en þessi lið verma 2.-5. sæti deildarinnar og eru einungis tveimur stigum á eftir toppliði Vals. Snæfell situr hins vegar í 7. sæti deildarinnar með 8 stig, tveimur stigum á eftir Breiðablik sem er í 6. sæti. 

Systraslagur verður í Valshöllinni á laugardaginn þegar Haukar sækja heim topplið Vals en Snæfell tekur á móti botnliði Njarðvíkur á sunnudaginn. 

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik