Leikur vikunnar í Euroleague er stórleikur Olympiakos og Valencia sem fram fer í kvöld kl 19:30 á heimavelli Valencia. 

 

Leikurinn er merkilegur fyrir margar sakir. Leikstjórnandinn Vassilis Spanoulis snýr aftur á völlinn eftir erfið meiðsli en hann hefur ekkert leikið á þessu tímabili vegna þeirra. Auk þess gat hann ekki leikið gegn Íslandi á Eurobasket með Gríska landsliðinu vegna meiðslanna. 

 

Spanoulis er stórskemmtilegur leikstjórnandi sem hefur unnið Euroleague þrisvar og var valinn leikmaður keppninnar árið 2013. Hann kemur enn ákveðnari til leiks en áður að ná í enn einn Euroleague titilinn í safnið. 

 

Miðherjinn Bojan Dubljevic er meiddur hjá Valencia sem gæti opnað á möguleika á að Tryggvi Snær Hlinason verði í leikmannahóp Valencia í dag. Samkvæmt heimasíðu Valencia er það talið líklegt og gerir það þennan leik enn áhugaverðari fyrir Íslenska áhorfendur. 

 

Leikurinn er í beinni útsendingu á Sport TV í kvöld. Stöðina má finna á www.sporttv.is eða á rás 13 í Sjónvarpi Símans eða 29 á myndlykli Vodafone. 

 

Helstu tilþrif Spanoulis frá síðasta tímabili má finna hér að neðan: