Ljóst er að Snorri Hrafnkelsson leikmaður Þórs Þ verður frá keppni í langan tíma. Hann greindist með einkirningasótt fyrir helgi og lék ekki með liðinu í gær gegn Val. 

 

Snorri lék 10 mínútur með Þór í stóru tapi á Sauðárkróki í síðustu viku. Hann hinsvegar veiktist eftir það og er ljóst að hann mun ekki leika körfubolta í bráð en leikmenn sem hafa lent í slíkum veikindum hafa verið í langan tíma frá. Þetta staðfesti Einar Árni í viðtali við Karfan.is eftir sigurleikinn gegn Val í gær. 

 

Snorri verður því að öllum líkindum frá í að minnsta kosti tvo mánuði og jafnvel enn lengur. Veikindin geta reynst erfið og eru til nokkur dæmi um íþróttamenn sem eru lengi að ná fyrri styrk vegna þeirra.

 

Vonandi fyrir Þór og alla körfuboltaáhugamenn kemur Snorri fílefldur til leiks eftir veikindin sem fyrst. Karfan.is sendir Snorra batakveðjur.