Snæfell og Vestri sem mættust í Stykkishólmi voru bæði með 10 stig fyrir leik dagsins í 3. og 4. sæti 1. Deildar.

 

Í hnotskurn. 

 

Heimamenn komu nokkuð öruggir með sig í leikinn og voru að spila vel strax í upphafi, hittu vel, ekkert fát og komust í 7-0. Vestri komust þó inn í leikinn og náðu að gera þetta að jafnari leik en upphafstölur gáfu til kynna. Ekki var munurinn mikill en tölur eftir fyrsta hluta 35-25 eftir að Snæfell náðu stemmingunni á sitt band undir lokin.

 

Snæfellingar náðu fínni forystu 48-33 og héldu sig við stýrið. Það var tekið á því í leiknum og leikurinn fast spilaður og línan þokukennd. Sveinn Arnar (4/6) og Nökkvi Már (4/5) voru að setja þristana í röðum niður og hittu einkar vel. Nebosja og Nemanja Knezevic voru prímusmótorar Vestra og voru erfiðir viðureignar sérstaklega Nemanja undir körfunni og var kominn með 23 stig og 14 fráköst. Hjá Snæfelli var Sveinn Arnar með 16 stig og einnig Christian Covile. Staðan í hálfleik var 65-54.

 

Þrátt fyrir að Snæfell héldu forystu voru Vestramenn ekki langt undan eða að jafnaði um 10 stig sem þykir ekki mikið. Eftir þriðja fjórðung var staðan 85-81 fyrir Snæfell og gestirnir sóttu á. Leikurinn var orðin eitt stig snemma í fjórða hluta 93-92. Vestri misstu Nemanja Knezevic útaf þegar 3 mín voru eftir og munaði þar svakalega um þeirra langsterkasta mann í leiknum. Snæfell tóku öll völd á vellinum, sigldu sigrinum eftir þetta, á öruggan hátt heim 111-94. 

Þáttaskil.

 

Þrátt fyrir að leiða allan leikinn þá misstu Snæfellingar forystuna í 1 stig í fjórða leikhluta. Vestramenn náðu einfaldlega ekki að taka þetta lengra og eftir að missa Nemanja útaf og fá tæknivillu þegar 3 mínútur voru eftir þá urðu þau kaflaskil að Snæfell kláraði leikinn.

 

Hetjan.

 

Sveinn Arnar var hetja Snæfellinga með þvíllíkri baráttu varnarlega, 27 stig (þar af 5 þristar) og 7 fráköst og átti erfitt verkefni gegn Nemanja Knezevic. Christian Covile var engu að síður atkvæðamestur Snæfells með 29 stig, 11 fráköst, 7 stoðsendingar og 6 stolna bolta.

 

Tölur.

 

19 þriggja stiga skot Snæfells niður í kvöld töldu allnokkuð en undir körfunni réðu Vestramenn meiru. Hjá gestunum var Nemanja Knezevic gríðarlega öflugur með 38 stig og 22 fráköst og næstur honum Nebosja Knezevic með 31 stig, 7 fráköst og 9 stoðsendingar. Viktor Marinó endaði með 17 stig fyrir Snæfell og Þorbergur Helgi 15 stig.

 

Tölfræði leiksins

 

 

 

Umfjöllun / Símon B. Hjaltalín 

Myndir / Haukur Páll Kristiinsson