Þór tók í dag á móti Domino´s deildarliði Snæfells í 16 liða úrslitum í leik sem fram fór í íþróttahúsi Síðuskóla.

 

Það var snemma ljóst að úrvalsdeildarliðið var einu númeri of stórt fyrir hið unga lið Þórs og 47 stiga tap staðreynd í dag. Þórsliðið sem saknaði þriggja sterkra leikmanna í dag, þeirra Ernu, Hrefnu og Helgu Rutar sýndi ágætis takta inn á milli og komust í raun ágætlega frá sínu.

 

 

 

Gangur leiks: 11-17 / 9-25 / 6-26 / 16-21

 

Snæfell byrjaði leikinn vel og hafði náð átta stiga forskoti snemma í fyrsta leikhluta 5-13 en þá kom fínn sprettur Þórs sem skoraði 6 stig gegn 4 Snæfells. Snæfell vann leikhlutann með sex stigum 11-17.

 

Í öðrum leikhluta bættu gestirnir í og juku forskotið jafnt og þétt og röðuðu niður hverri körfunni á fætur annarri meðan ekkert gekk upp hjá Þór í sóknarleiknum. Þegar fjórar mínútur voru liðnar af fjórðungnum var forskotið komið í 20 stig 12-32. Það sem eftir lifði leikhlutans skoraði Þór 8 stig gegn 10 gestanna. Snæfell vann leikhlutann 9-25 og hafði 22 stiga forskot í hálfleik 20-42.

 

Í þriðja leikhluta gekk ekkert upp hjá Þór hittni afleit og tapaðir boltar áberandi hjá liðinu meðan gestirnir léku á alls oddi og röðuðu niður stigunum. Fór svo að Þór skoraði aðeins 6 stig gegn 26 gestanna og munurinn komin  í 42 stig þegar lokakaflinn hófst 26-48.

 

Á lokakaflanum gekk ögn betur hjá Þórsstúlkum og tókst liðinu í raun að halda nokkuð sjó þótt leikhlutinn tapaðist með 5 stigum 16-21. Lokatölur Þór 42 – Snæfell 89

Þrátt fyrir stórt tap getur hið unga lið Þórs borið höfuðið hátt og engin skömm að láta í minni pokann fyrir úrvalsdeildarliðinu. Og eins og áður hefur komið fram saknaði Þór þriggja sterkra leikmanna og með þátttöku þeirra hefði Þór án efa veitt gestunum meiri keppni.

 

Í liði Þórs var Heiða Hlín Björnsdóttir öflug og skoraði 17 stig og tók 7 fráköst. Gréta Rún var einnig drjúg og var með 9 stig og 5 fráköst, Kristín Halla og Sædís Gunnarsdóttir 7 stig hvor, Árdís Eva og Alexandra Ósk 1 stig hvor þá var Særós sterk í vörninni og tók 8 fráköst en náði ekki að skora að þessu sinni. Þá komst Karen Lind vel frá sínu, spilaði 8 mínútur og var með 1 stoðsendingu.

 

Hjá Snæfelli var Rebekka Rún Karlsdóttir mjög sterk og skoraði 24 stig tók 6 fráköst og var með eina stoðsendingu. Berglind Gunnarsdóttir var með 16 stig 11 fráköst og 6 stoðsendingar. Kristen Denise McCarthy var með 15 stig og 15 fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir 12 stig, Inga Rósa Jónsdóttir 7 stig, Andrea Björt Ólafsdóttir 4 stig 7 fráköst og 6 stoðsendingar og Thelma Hinriksdóttir 2 stig og 5 fráköst.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, myndir / Páll Jóhannesson