Breiðablik sem við getum titlað varnarlið 1. deildar karla til þessa, litu við hjá Snæfelli í Stykkishólmi í dag. Breiðablik í öðru sæti deildarinnar og Snæfell í því fimmta fyrir leikinn.

 

Snæfellingar voru sprækir í upphafi og voru duglegir varnarlega og fengu nokkrum sinnum tapaða bolta Breiðabliks í hendurnar og gerðu sér mat úr því. Breiðablik bættu í þegar staðan var 19-11 og minnkuðu munin í 19-17 með góðri svæðisvörn. Þegar fyrsti leikhluti var úti  var staðan 28-21 fyrir Snæfell sem var við stýrið.

 

Snæfellingar hittu ágælega og Chris Covile setti ansi smart veggspjald á Blikana. Það voru hins vegar gestirnir sem sóttu vel á og komu leiknum niður í 1 stig 37-36 eftir að hafa verið 34-26 undir.  Ansi vel upplagðar sóknir og gott áhlaup. Sveinn Arnar stal þá þrumunni og gerði Blikum erfitt fyrir og heimamenn komust fljótt í gírinn aftur og leiddu 46-36. Snæfellingar misstu móðinn og fóru í ruglið í sóknum sínum og misstu Blikana í stuð sem jöfnuðu leikinn ansi snyrtilega og 51-51 voru hálfleikstölur.

 

Sveinn Arnar var með kennslustund í þriggjastiga sýningu og smellti fimmta og sjötta þristinum sínum niður strax í upphafi þriðja leikhluta og gaf það Snæfelli tóninn. En aftur og enn komu Breiðablix-menn með gott áhlaup og í þetta sinn komust þeir yfir 62-63. Blikar höfðu sest í bílstjórasætið og dró Jeremy Smith vagninn ásamt Árna Elmari og varnarleiknum. Snæfellingar sáu sér samt glufu og jöfnuðu leikinn 72-72 með góðum þrist Þorbergs Helga en þriðji hluti lokaði á 72-74.

 

Leikar voru jafnir og menn skiptust á að smella stórum körfum og voru alveg að anda í hálsmálið á hver öðru. Þegar 1:30 voru eftir var staðan 95-95. Spennandi lokamínúta þegar Snæfell leiddu 99-97 og í stöðunni 101-99 þegar um 14 sek voru eftir fóru Blikar sókn  en Viktor Marinó stal boltanum og kom Snæfelli í 103-99 þegar 8 sekúndur voru eftir. Getstirnir grænu gerðu ekkert eftir það og Snæfell náðu í alveg hreint magnaðan sigur.

 

Heimamennirnir og kokkarnir voru hetjurnar í leiknum Sveinn Arnar sem endaði með 23 stig og Þorbergur Helgi sem endaði einnig með 23 stig. Christian Covile var með 31 stig og 10 fráköst fyrir Snæfell og Viktor Marinó 20 stig. Hjá Breiðablik var Jeremy Smith með 27 stig og 11 fráköst og Árni Elmar 18 stig 

 

Þáttaskil voru í raun ekki nokkur í leiknum og ljóst að þetta réðist á síðustu augnablikunum í leiknum.

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Símon B Hjaltalín