Hattarmenn mættu stigalausir í Schenker-höll Hauka í kvöld. Þeir sigruðu að vísu í síðasta leik gegn Þór Ak en það var í bikarkeppninni. Haukar hafa litið afar vel út eftir að Kári Jóns kom til baka en þrátt fyrir það töpuðu þeir síðustu tveimur deildarleikjum, gegn Keflavík og Tindastóli.

 

Spádómskúlan: Það er bjart yfir kúlunni að þessu sinni – skyggni ágætt og blíð suð-vestanátt. Eftir jafnan fyrsta leikhluta munu leikar enda með öruggum 95-75 heimasigri.

 

Þáttaskil

 

Fyrsti leikhlutinn var nokkuð jafn. Haukar fengu framlag alls staðar frá meðan Mirko var vel tengdur fyrir gestina. Staðan var 23-18 eftir 10 mínútur. Um miðjan annan leikhluta tók að syrta í álinn fyrir Austmönnum. Arnór Bjarki og Hilmar komu inn með látum fyrir Hauka og áttu sinn þátt í því að búa til alvöru forystu. Vörn gestanna var með alvarlegan athyglisbrest og þristum fór að rigna yfir þá. Lewis reyndi mikið að draga vagninn í sókninni fyrir Austmenn en vörn Hauka var með puttann á púlsinum og fylgdu honum vel eftir eins og Augað á Hringnum. Heimamenn leiddu 58-42 í hálfleik og höfðu sett 9 þrista í 18 skotum.

 

Það var baráttuhugur í gestunum í byrjun seinni hálfleiks. Þeir náðu að minnka muninn niður í 10 stig ítrekað og Lewis hitnaði eilítið. Það liggur þó í augum uppi að varnarleikurinn var stóra vandamálið hjá gestunum og hann skánaði lítið í seinni hálfleik. Heimamenn enduðu þriðja leikhluta sterkt og gengu þá í raun frá leiknum – staðan 87-68 eftir þriðja og spádómskúlan rífandi sátt með þetta svona fyrir utan of hátt stigaskor! Það má sannarlega hrósa Hattarmönnum fyrir að gefast ekki upp og þeim tókst að minnka muninn í 90-79 gegn bekknum hjá Haukum. Ívar setti byrjunarliðið þá aftur inn og það lokaði leiknum hratt og örugglega. Lokatölur 105-86.

 

Tölfræðin lýgur ekki

 

Haukar höfðu betur í flestum tölfræðiþáttum enda sigurinn öruggur. Skotnýtingin var fín gegn lekri vörn gestanna og frákastabaráttan fór 47-33. 

 

Bestu leikmenn

 

Það er erfitt að taka einhvern út í liði Hauka. Kári, Haukur og Emil voru allir mjög góðir. Benda má á að Kári gaf 13 stoðsendingar og Emil 8 sem segir mikið um gott flæði í sókn Hauka.

 

Kjarninn

 

Sóknarleikur Hattar var alveg ágætur á köflum enda skoruðu þeir 86 stig. Það er augljóst að það er varnarleikurinn sem er vandamálið. Leikur þeirra virðist vera á uppleið og spurning hvort það muni halda áfram og skila stigum áður en langt um líður.

 

Haukar fara nú í Vesturbæinn í næstu umferð og fá þar tækifæri til að sanna sig. Ívar og hans menn hafa klárlega trú á því að geta unnið slíka leiki þrátt fyrir erfið tvö töp í röð í síðustu umferðum.

 

Tölfræði leiksins

 

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson