Í kvöld mættust Keflvíkingar og Íslands- og bikarmeistarar KR í TM-höllinni við Sunnubraut. Fyrir leikinn voru heimamenn í 2. sæti deildarinnar með 10 stig á meðan Vestubæingar sátu í 7. sætinu með 8 stig eftir tvo tapleiki í röð og nokkra lykilmenn í meiðslum.

 

Byrjunarlið Keflavíkur: Reggie Dupree – Daði Lár – Þröstur Leó – Guðmundur Jóns – Stanley Robinson

 

Byrjunarlið KR: Orri Hilmars – Kristófer Acox – Björn Kristjáns – Jalen Jenkins – Darri Hilmars

 

Gangur leiksins

Keflvíkingar hófu leikinn með látum og komust í 8-0 og virkuðu vel stemmdir á meðan sóknarleikur KR-inga var stirður og illa gekk að brjóta sér leið í gegnum fyrsta varnarmann. Keflvíkingar voru að hitta vel fyrir utan þriggja stiga línuna en gleymdu sér oft á hinum enda vallarins og KR-ingar héldu sér í seilingarfjarlægð með auðveldum stigum eftir sóknarfráköst. Staðan að loknum 1. leikhluta var 27 – 22 fyrir heimamenn.

 

Finnur Freyr, þjálfari KR-inga, hefur eitthvað einfaldað málin fyrir sína menn fyrir byrjun 2. leikhuta en KR-ingum gekk betur að finna opin skot og komust yfir í fyrsta skiptið í leiknum í stöðunni 29-30 og tók Friðrik Ingi Rúnarsson leikhlé í kjölfarið. Sóknarleikurinn sem hafði gengið ágætlega fyrstu 10 mínútur leiksins varð æ lélegri eftir því sem leið á hálfleikinn án þess að KR-ingar væru að bjóða uppá ýkja merkilegan varnarleik. Jalen Jenkins var sem kóngur í ríki sínu sóknarmegin og var kominn með 17 stig og 6 sóknarfráköst áður en hálfleiksbjallann gall.

Staðan í hálfleik var 47 -56 fyrir KR.

 

Það var afskaplega fátt um fína drætti í síðari hálfleiknum og gæði leiksins lítil. Munurinn á liðunum hélst nánast óbreyttur allan þriðja leikhlutann en heimamenn virtust algjörlega heillum hornfir sóknarlega og stemmningin eins og á þjóðarbókhlöðu Íslands í prófatíð. Guðmundur Jónsson reyndi hvað hann gat að lífga sína menn til lífsins með 7 stigum í röð og baráttu en það skilaði þó litlu fyrir Keflvíkinga þar sem KR-ingar fundu ætíð glufur og opin skot og svöruðu hverrri körfu heimamanna. Guðmundi var svo verðlaunuð baráttan og eljan með því að sitja allan 4. leikhlutann á bekk heimamanna, eitthvað sem vakti athygli m.v. gang leiksins og framlag annarra leikmanna.

Staðan eftir 3. leikhlutann 65 – 74.

 

Ef andleysi heimamanna var viðloðandi þriðja leikhlutann þá náðust nýjar hæðir í þeim efnum í síðasta leikhlutanum. KR-ingar gerðu hvað þeim sýndist sóknarlega og komust bakverðir þeirra iðulega framhjá sínum varnarmanni sem opnaði fyrir skytturnar. Keflvíkingar reyndu ekkert til að brjóta upp leikinn, spiluðu óagaðan sóknarleik og gáfust endanlega upp um miðbik leikhlutans, þó aðeins 11 stigum undir á þeim tímapunkti. Munurinn jókst svo með hverri sókninni og í lokin munaði 17 stigum á liðunum.

Lokatölur 85 – 102 fyrir KR sem verðskuldaði sigurinn.

 

Hetjan

Liðsheild KR. Við gefum þeim Jalen Jenkins (20 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar), Darra Hilmarssyni (18 stig og 6 stoðsendingar) og Kristófer Acox (16 stig og 9 fráköst) þennan titil. Þeir áttu allir ágætis dag þrátt fyrir að KR væri ekki að bjóða uppá neina flugeldasýningu. Sterkur sigur að landa á erfiðum útivelli og þessir þrír drógu vagninn í annars jöfnu KR liði.

 

Hjá Keflavík var Stanley Earl Robinson (17 stig og 9 fráköst) atkvæðamestur og sýndi inn á milli lipra takta sóknarlega en fyrirliðinn Guðmundur Jónsson (14 stig) var sá eini sem virtist hafa einhvern metnað fyrir því að berjast fyrir sigrinum þegar á móti blés.

 

Tölfræðin lýgur ekki

KR-ingar gjörsigruðu frákastabaráttuna 31 – 49. Vesturbæingar rifu niður 13 sóknarfráköst í fyrri hálfleik og í kjölfarið fylgdu auðveld stig eftir flest þeirra. Þessi þáttur lagði grunnin að sigri þeirra í dag og máttu þeir Þröstur Leó og Stanley Robinson síns lítils gegn þeim Jalen Jenkins og Kristófer Acox sem voru gráðugir og tilbúnir að berjast um alla boltana sem duttu af hringnum.

 

Kjarninn

Eftir slaka byrjun KR-inga tókst þeim að útfæra sóknarleik sinn ögn hærra plan sem skilaði þeim opnari skotum og betri stöðu í teignum gegn lágvöxnum Keflvíkingum. Það verður þó að staldra við varnarleik heimamanna sem hefðu ekki getað komið í veg fyrir að farlama gamalmenni með göngugrind hefði brotið sér leið að körfunni eða sótt sóknarfrákast í þeirra greipar, þá sérstaklega í fyrri hálfleiknum því slíkur var metnaðurinn í að stíga manninn sinn út. KR-ingar voru ekki að spila neitt sérstaklega vel en þeir voru nógu þolinmóðir sóknarmegin til að bíða eftir besta skotinu sem í boði var og notfæra sér mistökin í færslum varnarinnar hjá heimamönnum. Keflvíkingar voru taktlausir sóknarlega og kraftlausir á lífi og sál báðum megin á vellinum í þrjá leikhluta. Allt of margir í þeirra liði áttu mjög slakan dag á báðum endum vallarins og sú mikla breidd sem einkennt hefur liðið var ekki sýnileg í kvöld. Ef einhvern tímann var lag á að vinna KR þá var sá dagur í dag en KR-ingar léku án Brynjars, Jóns Arnórs og Pavels, þriggja lykilmanna, auk þess að vera að koma undan tveimur tapleikjum.

 

Ungir leikmenn í liði KR nýttu sínar mínútur mjög vel og ber að hrósa þeim Orra Hilmarssyni og Andrési Ísaki Hlynssyni fyrir að stíga upp þegar meiðsli í herbúðum Íslandsmeistarana eru slík að setja þarf mikla ábyrgð á óreyndar herðar. Þegar talið verður upp úr kössunum í lok móts verður þessi reynsla sem þessir piltar hafa fengið snemma í mótinu eitthvað sem dýrmætt gæti orðið fyrir Finn Stefánsson að sækja í. Nýr erlendur leikmaður KR-inga, bakvörðurinn Zaccery Alen Carter komst ágætlega frá sínu en honum er greinilega ætlað að vera uppfyllingarefni á meðan dýptin í liði KR er lítil og ágætur kostur sem slíkur þar til lykilmenn snúa aftur til starfa. Þá var Darri Hilmarsson traustur að vanda og drjúgur í síðari hálfleiknum þegar snúa þurfti rýtingnum endanlega í síðu heimamanna.

 

Liðin eru nú jöfn að stigum í deildinni, bæði með 10 stig í 4. og 5. sæti.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun: Sigurður Friðrik Gunnarsson // Viðtöl: Sigurður Orri Kristjánsson