Það má með sanni segja að farið hafi um stuðningsmenn Þórs þegar tvær mínútur voru eftir að þriðja leikhluta og Njarðvík komið með 22 stiga forskot og margir töldu víst að dagskránni væri lokið. En sú varð ekki raunin þegar upp var staðið því þegar um hálf mínúta var til leiksloka var munurinn á liðunum komin í þrjú stig 85-88. 

 

Leikurinn fór rólega af stað og jafnræði var með liðunum fram yfir miðjan fyrsta leikhluta kom góður kafli gestanna sem breyttu stöðunni úr 12-13 í 14-22 og gestirnir leiddu með átta stigum þegar annar leikhlutinn hófst.

 

Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og áfram leiddu gestirnir með 6-10 stigum. Njarðvík vann leikhlutann með einu stigi 19-20 og leiddu með níu stigum 33-42.

 

Þór skoraði fyrstu stigin í síðari hálfleik og kom muninum niður í sex stig 38-44 en þá hrökk allt í baklás hjá Þór og Njarðvíkingar tóku leikinn í sínar hendur. Og áður en menn vissu af var munurinn aftur komin upp í 10 stig 41-51 og Þórsliðið virtist hreinlega engin svör eiga við leik gestanna sem gengu á lagið. Þegar um tvær mínútur lifðu þriðja leikhluta virtist Þórsliðinu allar bjargir bannaðar. Munurinn komin í 22 stig og útlitið vægast sagt dökkt. 

 

 

En þá loks hrukku Þórsarar í gírinn, vörnin small saman og þeir tóku að saxa á forskot gestanna og alveg ljóst að þeir voru ekki tilbúnir í að semja strax um dagskrárlok. Þór skoraði síðustu tvær mínútur þriðja leikhlutans 13-3 og munurinn komin niður í 9 stig þegar lokaspretturinn hófst 66-75.

 

Njarðvíkingar byrjuðu fjórða leikhlutann sterkt og bættu í forskotið og eftir þriggja mínútna leik var munurinn komin í 15 stig 68-83. Þegar hér var komið við sögu tóku Þórsarar aftur til sinna ráða og með mikilli baráttu tóku þeir að saxa á forskot gestanna og þegar um 25 sekúndur voru til leiksloka var munurinn komin niður í þrjú stig 85-88. Þórsarar fengu tækifæri á að jafna leikinn en tókst ekki að skora meir en gestirnir kláruðu leikinn að mestu á vítalínunni og skoruðu þaðan síðustu fjögur stig leiksins. 

 

Þótt Njarðvíkingar hafi haft þægilegt forskot framan af leiknum þá þróaðist leikurinn þannig á lokakaflanum að sigurinn hefði hæglega geta dottið hvoru megin sem var. Segja má að reynslan hjá gestunum hafi skilið á milli liðanna á lokasprettinum sem fóru með 7 stiga sigur af hólmi 85-92.

 

Það verður ekki  á neinn hallað þegar fullyrt er að Ingvi Rafn Ingvarsson hafi verið besti maður vallarins í kvöld. Ingvi Rafn skoraði 36 stig tók 2 fráköst og 3 stoðsendingar. Næstur kom Marques Oliver með 16 stig 13 fráköst og 3 stoðsendingar. Júlíus Orri Ágústsson var með 13 stig 2 fráköst og 5 stoðsendingar. Pálmi Geir var með 10 stig og 4 fráköst, Sindri Davíðsson 8 stig og 7 stoðsendingar og Bjarni Rúnar Lárusson 2 stig 9 fráköst og 2 stoðsendingar. 

 

Hjá Njarðvík var Terrell Vinson stigahæstur með 25 stig og 10 fráköst, Logi Gunnarsson var með 22 stig, Maciek Stanislav Baginski 15 stig , Oddur Rúnar Kristjánsson 12 stig. Snjólfur Marel Stefánsson 8 stig 7 fráköst og 4 stoðsendingar,  Ragnar Helgi var með 4 stig og 4 stoðsendingar, Ragnar Nathanaelsson 4 stig og 4 stoðsendingar og loks Vilhjálmur Theodór Jónsson 2 stig og 3 fráköst. 

 

Tölfræði leiksins 

 

Gangur leiks eftir leikhlutum: 14-22 / 19-20 / 30-33 / 22-17

 

Eftir leiki kvöldsins er Þór sem fyrr í 9. Sætinu með 4 stig en Tindastóll og ÍR á topp deildarinnar með 10 stig.

 

Myndasafn (Palli Jóh)

 

Viðtal við Hjalta Þór