Þór vann í dag öruggan sigur á Hamri þegar liðin mættust í 7. umferð 1. deildar kvenna í körfubolta.
Það voru þó gestirnir úr Hveragerði sem byrjuðu leikinn betur og svo virtist sem einhver skjálfti væri í Þórsstúlkum sem voru lengi að finna taktinn. Gestirnir leiddu lengst af í fyrsta leikhluta og höfðu eins stig forskot af honum loknum 14-15.
Allt annað var að sjá til Þórs í öðrum leikhluta, vörnin sterk og sóknar leikurinn gekk mun betur en í upphafi leiks. Á sama tíma gekk ekkert upp hjá gestunum sem náðu ekki að skora fyrr en um sex mínútur voru liðnar af leikhlutanum og þá var staðan 26-17. Fór svo að gestirnir náðu ekki að skora nema 8 stig gegn 21 Þórs sem leiddi í hálfleik 35-23.
Þórsarar höfðu heldur hægar um sig í þriðja leikhluta og ætluðu sér á tíma of mikið sem leiddi til of margra mistaka. Þór vann leikhlutann 13-11 og hafði 14 stiga forskot þegar fjórði leikhlutinn hófst 48-34.
Þórsstúlkur bættu leik sinn á lokakaflanum og höfðu ávallt góð tök á leiknum. Helgi gaf yngri og óreyndari leikmönnum að spreyta sig á lokakaflanum og sá tími fer í reynslubankann hjá þeim. Þór vann leikhlutann 20-11 og 23 stiga sigur staðreynd.
Sigur Þórs var mjög sanngjarn og aldrei í hættu eins og tölurnar bera með sér.
Í liði Þórs var Heiða Hlín stigahæst með 20 stig og 11 fráköst, Helga Rut var með 15 stig og 18 fráköst, Unnur Lára 14 stig og 5 fráköst, Hrefna 10 stig, Árdís Eva 7 og Særós 2.
Hjá Hamri var Helga Sóley stigahæst með 10 stig, Þórunn Bjarnadóttir og Álfhildur 9 stig hvor, Ragnheiður 6, Gígja Marín og Bjarney Sif 5 stig hvor og Sóley Gíslína 1 stig.
Eftir sigurinn er Þór í fjórða sæti deildarinnar nú með 8 stig.
Liðin mætast svo öðru sinni í dag sunnudag og hefst leikurinn klukkan 13:00
Umfjöllun / Páll Jóhannesson