Stjarnan tók í kvöld á móti Njarðvík í Domino’s deild kvenna. Fyrir leikinn var Stjarnan í 4. sæti deildarinnar á meðan Njarðvík var í því neðsta. Eftir nokkuð tilþrifalítinn leik fór loks svo að Stjörnukonur unnu ansi öruggan sigur, 77-60, eftir að hafa leitt nánast allan leikinn. 

 

Þáttaskil

 

Í raun þarf ekki að hafa mörg orð um það hvað skildi á milli liðanna í kvöld. Stjörnukonur voru einfaldlega betri á öllum sviðum körfuboltans í kvöld. Garðbæingar voru 17 stigum yfir í hálfleik og þrátt fyrir ágætis baráttu gestanna tókst þeim ekki að halda í við Stjörnuna. Dani Rodriguez var sem fyrr atkvæðamikil hjá Garðbæingum og Bríet Hinriksdóttir kveikti nokkrum sinnum í netinu með þristum. 

 

Best

 

Dani Rodriguez daðraði enn á ný við þrennuna með 27 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Einfaldlega frábær leikmaður sem fá lið geta ráðið við. Bríet Sif Hinriksdóttir átti einnig flottan leik með 20 stig,  sem og þær Ragna Margrét Brynjarsdóttir og Sylvía Rún Hálfdánardóttir.

 

Framhaldið

 

Stjörnukonur halda til Reykjanesbæjar á laugardaginn kemur og mæta þar Íslandsmeisturum Keflavíkur, á meðan Njarðvík fer í Stykkishólm á sunnudaginn og mæta þar Snæfelli. 

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson