Njarðvík vann í kvöld sinn þriðja sigur á heimavelli í röð í Domino´s-deild karla þegar liðið lagði Grindavík 97-75. Heimamenn lögðu grunninn að góðum sigri í þriðja leikhluta en þær 10 mínútur féllu 30-14 heimamönnum í vil. Oddur Rúnar Kristjánsson var stigahæstur í liði Njarðvíkinga í kvöld með 22 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar en hjá Grindavík var Ólafur Ólafsson með 19 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar.

Dagur Kár Jónsson lék ekki með Grindavík í kvöld vegna meiðsla og þá urðu Njarðvíkingar fyrir alvarlegum skakkaföllum undir lok leiks þegar bera varð Ragnar Helga Friðriksson meiddan af velli. Ragnar var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til athugunar en hann sneri sig á ökkla eftir þriggja stiga skot þegar Ingvi Þór Guðmundsson leikmaður Grindavíkur kom til varnar skotinu og þeir þvældust saman. Við flytjum nánari fregnir af stöðunni á Ragnari um leið og þær berast en vonum að sjálfsögðu að þessi öflugi leikmaður jafni sig fljótt og örugglega.

Þáttaskil
Nóg var skorað í fyrri hálfleik og Grindavík leiddi 44-48 að honum loknum. Heimamenn urðu þó fyrri til með Ragnar Nathanaelsson í broddi fylkingar til að þétta varnirnar og splæstu í 30-14 leikhluta og sá fjórði varð í raun aldrei spennandi. Lætin í Ragnari og Snjólfi Marel Stefánssyni í vörn Njarðvíkinga var vítamínssprautan sem kom Njarðvík á sporið en Snjólfur hafði á köflum klætt Rashad Whack í Overcoat-inn góða en Whack gerði aðeins 7 stig í kvöld og var 0-6 í þristum.

Hetja leiksins
Hún fellur eiginlega ekki í eintölu að þessu sinni. Oddur Rúnar átti góðan leik fyrir Njarðvíkinga með 22 stig en þegar Ragnar Á. Nathanaelsson og Snjólfur settu undir sig höfuðið á varnarendanum voru hetjur kvöldsins fundnar og Grindvíkingar sáu ekki til sólar eftir það.

Tölfræðin lýgur ekki
Njarðvíkingar voru í fínum málum fyrir utan þriggja stiga línuna í kvöld með 12-19 í þristum eða 63% nýtingu! Að sama skapi vildi hann ekki detta hjá Grindvíkingum sem voru 5-29. Þá munar um minna að hafa Dag Kár á bekknum í borgaralegum klæðum en til þessa hefur hann skilað 14 stigum, 4 fráköstum og 6,2 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Kjarninn
Í fyrri hálfleik var allt galopið, mikið skorað og smá svona „villta vestrið“ bragur á leiknum sem auðvitað gleður augað. Í þeim síðari hertu heimamenn tökin með þéttum varnarleik og fyrir vikið varð leikurinn minna augnakonfekt og nokkrum sinnum sauð á mönnum.

Eftir leik kvöldsins eru Njarðvíkingar komnir í 2.-4. sæti deildarinnar með 10 stig eins og ÍR og Keflavík en Tindastóll er sem fyrr á toppnum með 12 stig. Grindavík er í 5.-7. sæti með 8 stig eins og Haukar og KR.

Tölfræði leiksins
Myndasafn