Gnúpverjar tóku á móti Snæfell í 1. deild karla á heimavelli sínum í Fagralundi. Bæði lið töpuðu í síðustu umferð, Gnúpverjar í sveiflukenndum leik gegn Fjölni 92-91og Snæfell gegn toppliði Skallagríms 108-97. Staðan hjá þessum liðum í deildinni var fyrir leikinn að Gnúpverjar hefðu með sigri komist upp fyrir Snæfell með sigri.
Leikurinn hófst fjörlega og var mikill hraði í leiknum, Gnúpverjar leiddu 7-9 en mjög jafnt var á öllum tölum fyrstu fimm mínúturnar. Bæði lið að fá framlag úr öllum áttum en svo tók Christian Covile hjá Snæfell algjörlega leikhlutann yfir, hann skoraði 24 stig í leikhlutanum og leiddu gestirnir 24-41. Everage Lee Richardson var iðinn við kolann hjá Gnúpverjum og er mikill skorari þarna á ferðinni. Snæfell héldu áfram í öðrum leikhluta að raða niður stigunum og komust þeir í 30-54 sem var mesta forysta þeirra í leiknum. Gnúpverjar börðust grimmilega og náðu að koma muninum niður í 16 stig áður en kom að hálfleik. Staðan í hálfleik 47-63 Snæfell í vil.
Snæfell náðu muninum snögglega uppí tuttugu stig en barátta og elja heimamanna kom muninum niður í þretán stig 53-71 og Snæfell tóku leikhlé. Gnúpverjar skoruðu og komu muninum niður í 11 stig áður en Snæfell hrukku aftur í gang og skoruðu körfur í öllum regnbogans litum með Viktor Marínó sprækan. Snæfell leiddu 65-88. Snæfell gáfu ekkert eftir þennan mun en auðveldara var fyrir menn að skora á báðum endum, allir fengu fín tækifæri á að spila og lokatölur 95-110 Snæfell í vil.
Stigahæstur hjá heimamönnum var stigamaskínan Everage Lee Richardson, kappinn skoraði 51 stig og tók 9 fráköst, næstur var Tómas Steindórsson með 12 stig og 10 fráköst, þriðji stigahæsti var Ægir Hreinn Bjarnason með 11 og 7 fráköst.
Stigahæstur hjá gestunum var Christian Covile með 52 stig og 14 fráköst, næstir voru þeir Geir Helgason með 16 stig og 7 fráköst og Viktor Alexandersson með 16 stig og 7 stoðsendingar.
Snæfell fóru uppí 4. sæti með sigrinum en Gnúpverjar eru í 7. sæti. Næstu leikir hjá þessum liðum eru að Gnúpverjar mæta Hamarsmönnum á útivelli næstkomandi föstudag en Snæfell fá Breiðablik heim næstkomandi sunnudag.