Mánaðarlega mun Karfan birta kraftröðun í vetur. Þar er ekki aðeins tekin til staða liðanna í deildinni, heldur einnig breytingar á leikmannahópum og það gengi, eða sú sveifla sem liðið er í á hverri stundu.

 

Hér fyrir neðan er nóvember útgáfan fyrir Dominos deild kvenna. Það sem horft er til í þessari annarri útgáfu er gengi liðanna í upphafi móts, sem og hversu líklegt er að þau haldi því út tímabilið.

 

Örvarnar merkja þá breytingu sem orðið hefur á liðinu frá útgáfu síðustu kraftröðunnar.


#1: Haukar

Líkt og mörg ung lið þá er stöðugleikinn ekki alltaf til staðar í þessu annars frábæra liði Hauka. Þær tapa í síðustu umferð nokkuð spennandi leik fyrir Skallagrím í Borgarnesi. Eru sem stendur í öðru sæti deildarinnar, einum sigurleik á eftir Val, en þær unnu þær nokkuð sannfærandi fyrir nokkrum vikum. Við höfum trú á að Haukar séu í dag besta lið landsins og að með fleiri leikjum nái þær að slípa sig betur saman. Með fínann erlendan leikmann í Cherise, sinn besta leikmann í Helenu og þá eru þær einnig að fá flott framlag frá yngri leikmönnum liðsins, þá aðallega Rósu, Þóru og Dýrfinnu.

Breyting: Upp um 1 sæti

 

#2: Valur

Liðið hefur einungis tapað einum leik og það á útivelli gegn Haukum. Liðið býr yfir mikilli breidd og leikmenn á borð við Elínu Sóley og Hallveigu eru einfaldlega einbeittari og sterkari en á síðastu leiktíð. Handbragð Darra Freys er orðið sýnilegt og liðið líklegt til alls þegar það er komið í enn betri takt.

Breyting: Upp um 4 sæti

 

#3: Keflavík

Einhver sagði einhverntíman að aldrei skyldi maður vanmeta meistarahjartað. Í tilfelli Keflavíkur er erfitt að gera það ekki. Eftir 7 leiki hafa þær tapað 3 þeirra. Allt tímabilið í fyrra töpuðu þær aðeins 6 í heildina. Hafa þó síðustu vikur komið eilítið til baka, með öruggum sigri á Skallagrím og voru svo í hörkuleik gegn Haukum í síðustu umferð. Þriðja sætið þeirra að þessu sinni.

Breyting: Niður um 2 sæti

 

#4: Stjarnan

Óstöðugleikinn hrjáir liðið enn. Í fyrstu umferðinni hefur liðið sýnt sínar bestu og verstu hliðar. Margt jákvætt í gangi hjá liðinu sem virðist vera heilsteyptara og betra en í fyrra. Danielle Rodriquez er enn betri en á síðasta tímabili og er gríðarlegur leiðtogi í þessu sterka liði sem gæti klifið ofar ef það finnur stöðugleikann.

Breyting: Upp um 2 sæti

 

#5: Breiðablik

Nýliðunum var spáð næstum öruggu falli fyrir tímabilið. Þær hafa svo sannarlega sýnt það að þær skal taka alvarlega. Með sigra á Keflavík og gegn Haukum hefði auðveldlega verið hægt að sjá þær ofar á þessum lista, en þá værum við ekki að taka töpin gegn Skallagrím og Snæfell inn í dæmið. Geta á góðum degi unnið hvaða lið deildarinnar sem er og ef þær halda áfram að bæta sig á þessum hraða, þá ættu þær að gera tilkall til sætis í úrslitakeppninni að tímabili loknu.

Breyting: Upp um 3 sæti

 

#6: Skallagrímur

Borgnesingar fóru hægt af stað. Liðið hafði komið seint saman í sumar og var formið á því ekki gott. Þrátt fyrir fín úrslit gegn Stjörnunni og Breiðablik var ekki margt sannfærandi í leik liðsins. Carmen drífur sóknarleik liðsins áfram ein á báti og virðast aðrir leikmenn ekki finna taktinn þeim megin vallarins. Mikil meiðsli hafa hrjáð hóp sem fyrir var þynnri en bæjarblaðið í Borgarnesi. Hæfileikar til staðar en október var ekki sannfærandi.

Breyting: Niður um 3 sæti

 

#7: Snæfell

Hvað er hægt að segja. Náðu í virkilega góðan sigur gegn Breiðabliki í síðustu umferð. En er það eitthvað sem aðdáendur Snæfells vilja tala um. Að hafa náð í góðan sigur gegn nýliðum Breiðabliks? Meistarar þriggja síðustu fjögurra ára eru sem stendur í 6. sæti deildarinnar með neikvætt sigurhlutfall, 3 sigurleiki og tapað 4. Gerum fastlega ráð fyrir því að Snæfell fari aftur upp á þessum lista, en miðað við þennan síðasta mánuð er 7. sætið það besta sem við getum í annars ruglað jafnri deild.

Breyting: Niður um 3 sæti

 

#8: Njarðvík

Liðið samdi við einn slakasta erlenda leikmann sem hefur komið til landsins sem lék með liðinu fyrstu tvo leikina sem töpuðust afar sannfærandi. Sjálfstraustið virtist fjara hratt út í byrjun og liðið spilaði ekki vel. Nokkur batamerki voru þó á leik liðsins er leið á október en liðið er enn án sigurs og hefur tapað leikjum sínum með -176 stigum samtals.

Breyting: Niður um 1 sæti