Mánaðarlega mun Karfan birta kraftröðun í vetur. Þar er ekki aðeins tekin til staða liðanna í deildinni, heldur einnig breytingar á leikmannahópum og það gengi, eða sú sveifla sem liðið er í á hverri stundu.

 

Hér fyrir neðan er nóvember útgáfan fyrir Dominos deild karla. Það sem horft er til í þessari annarri útgáfu er gengi liðanna í upphafi móts, sem og hversu líklegt er að þau haldi því út tímabilið.

 

Örvarnar merkja þá breytingu sem orðið hefur á liðinu frá útgáfu síðustu kraftröðunnar.

 

#1: Tindastóll

 

Eins og staðan er í dag er Tindastóll besta lið landsins. Með þennan frábæran hóp hafa þeir klárað hvern leikinn á eftir öðrum eftir tapið fyrir ÍR í fyrstu umferð. Nokkrir þeirra verið nokkuð tæpir, helst óþæginlega tæpur gegn Val í annarri umferð. Við höfum þó þá trú að þeir séu með hverjum deginum að verða betri og sjáum fyrir okkur að það verði ansi erfitt fyrir (flest) hin liðin í deildinni að ná þeim þegar þeir komast á fulla ferð.

Breyting: 1 sæti upp

 

 

#2: KR

 

Íslandsmeistarar síðustu fjögurra ára eru enn með fáránlega vel mannað lið en meiðsli og fjarverur hafa komið í veg fyrir að liðið nái að spila sínu besta liði á sama tíma. Jón Arnór verður frá í nokkurn tíma og breiddin í liðinu er ekki brjáluð en einungis sjö leikmenn spila meira en 10 mínútur í leik að meðaltali. Einungis einn leikur hefur tapast og það gegn Stjörnunni þar sem liðið missti algjörlega hausinn. Nokkrir sigrar hafa ekki verið sannfærandi en gæðin eru enn til staðar.

Breyting: 1 sæti niður

 

 

#3: Grindavík

 

Á blaði er Grindavík næstum alveg á pari við liðin í efstu tveimur sætum þessa lista. Frammistaða þeirra hefur þó ekki verið þar. Rétt merja Þór heima, tapa svo fyrir bæði Tindastól og Keflavík í síðasta mánuði. Við erum á engan hátt að segja að þetta sé búið fyrir Grindavík, þvert á móti gerum við ráð fyrir þeim mun sterkari það sem eftir er af vetri. Það er ennþá bara nóvember, það vita þeir full vel líka.

Breyting: Engin

 

 

#4: ÍR

 

Þetta ÍR lið er bara eitthvað allt annað í dag. Félagið sem var lengi í krónískt í 9-10 sæti og stemmningsleysi yfir. Síðan eru liðin nokkur ár og eiga forsvarsmenn ÍR, stuðningsmenn, leikmenn og þjálfarar hrós skilið fyrir að snúa öllu við hjá félaginu. Stemmningin er mögnuð þar sem Ghetto Hooligans fara fyrir sínum mönnum. Liðið sjálft er vel þjálfað og í góðum takti. Hafa sýnt það með útisigrum í Garðabæ og Sauðárkróki að liðið er hársbreidd frá því að stimpla sig inn í toppbaráttuna.

Breyting: 5 sæti upp

 

 

#5: Keflavík

 

Keflavík stendur í stað á milli lista hjá okkur. Sögðum síðast að með jafn sjóaðan þjálfara og Friðrik Ingi er, þá yrðu þeir fljótir að finna lausnir á þeim mörgu spurningum sem vakna þegar litið er á leikmannahóp þeirra. Það hefur svo sannarlega gengið eftir. Einn virkilega lélegur leikur hjá liðinu það sem af er, gegn Þór á Akureyri. Annars hafa þeir verið góðir, sigrar gegn Grindavík, Haukum og gegn Val undirstrika að ekkert verður gefið eftir í Keflavík í vetur.

Breyting: Engin

 

 

#6: Haukar

 

Jójó lið Hauka er enþá bara jójó. Náðu upp frábærri stemmningu og frammistöðu við komu Kára Jónssonar en síðan þá hefur liðið tapað tveimur í röð og misst dampinn nokkuð. Emil Barja virðist finna sig mun betur með Kára hliðin á sér auk þess sem Haukur Óskarsson fær opnari skot fyrir vikið sem hann setur ofaní. Breidd Hauka er mjög mikil og loksins loksins fengu Haukar sterkan erlendan leikmann í Paul Jones. Virðast eins og staðan er núna aðeins frá toppbaráttunni.

Breyting: 3 sæti upp

 

 

#7: Stjarnan

 

Byrjuðu tímabilið virkilega sterkt, með sigrum á KR og Hetti, en hafa síðan tapað þremur leikjum í röð gegn Njarðvík, Þór og nú síðast ÍR. Alltsaman jafnir leikir sem hefðu hæglega geta dottið með þeim. Hægt að færa rök fyrir að þetta sé allt viðbúið miðað við það lið sem verið er að setja saman í Garðabænum. Við búumst allt eins við Stjörnunni sterkari en þetta þegr líða fer á veturinn.

Breyting: 3 sæti niður

 

 

#8: Njarðvík

 

Nokkur pressa er á Njarðvík þetta tímabilið eftir vonbrigðin í fyrra og viðbæturnar í sumar. Liðið hefur farið ágætlega af stað en verið ansi langt frá því að vera sannfærandi líkt og í naumum sigri á Val. Njarðvík er með flottan kjarna af leikmönnum sem eru til alls líklegir þegar liðið er komið í góðan takt og búið að spila saman í smá tíma. Miðjan í deildinni er mjög þétt og má litlu muna á liðunum, Njarðvík er eftir október í neðri hlutanum en er það lið sem er líklegast til að taka stökk uppá við. 

Breyting: 2 sæti niður

 

 

#9: Þór

 

Eftir mikil vandræði vegna bæði matareitrunnar leikmanna og meiðsla lykilleikmanna náði Þór loksins í fyrsta sigur vetrarins gegn Stjörnunni í síðustu umferð. Eru sem stendur í 10. sæti deildarinnar og fyrir utan úrslitakeppni í þessari kraftröðun okkar. Hvort sem það er vegna þessara vandræða skiptir kannski ekki máli, hafa ekki sýnt það að þeir séu betra lið en þetta nema að litlu leyti. Að því sögðu, þá gerum við ráð fyrir þeim sterkari næstu vikurnar.

Breyting: 2 sæti niður

 

 

#10: Þór Akureyri

 

Klárlega spútniklið deildarinnar hingað til. Trúin á liðinu var nánast engin hjá spámönnum og sérfræðingum, þeir svartsýnustu báru liðið jafnvel saman við lið Snæfells frá síðustu leiktíð. Það tók liðið þó ekki nema tvær umferðir að ná í sigur. Frábærir sigrar gegn Keflavík og Hetti á heimavelli gefa góð fyrirheit en það virðist ekki vera auðvelt að spila í HM 95‘ höllinni á Akureyri. Þórsurum var kippt hressilega á jörðina gegn KR en einstaklingsgæði liðsins er enn ábótavant, liðsheildin getur þó fleytt liðinu nokkuð langt.

Breyting: 2 sæti upp

 

 

#11: Valur

 

Eftir hræðilegt tap fyrir Keflavík í fyrstu umferð hafa nýliðar Vals bara verið nokkuð góðir. Unnu jafnan leik gegn Hetti á Egilsstöðum, en tapa fyrir Njarðvík, KR og Tindastól með rúmum 4 stigum að meðaltali. Allt leikir sem hefðu getað dottið þeirra megin, en gerðu það ekki. 

Breyting: Engin

 

 

#12: Höttur

 

Stemmningin sem fylgir oft nýliðum í efstu deild hefur algjörlega orðið eftir í 1. deildinni í tilviki Hattar. Liðið er flatt og verið nokkuð frá því að ná sigri í öllum leikjum nema í heimaleiknum gegn Val. Þurftu að skipta um erlendan leikmann og Aaron Moss virðist hingað til ekki vera nægilega góður til að draga liðið áfram í Dominos. Höttur hefur hingað til verið alslakasta lið deildarinnar og ef liðið nær ekki fljótt vopnum sínum verður veturinn ískyggilega langur á Egilsstöðum.

Breyting: 2 sæti niður